Listi yfir 411 Íslendinga, sem koma fyrir í gagnasafni kínverska fyrirtækisins Zhenhua, er birtur í Morgunblaðinu í dag. Þar má finna fjölda nafna áhrifafólks í íslensku þjóðfélagi, en einnig barna þeirra, maka og skyldmenna annarra.
Þar má finna töluvert af stjórnmálafólki, núverandi og fyrrverandi, starfsmönnum utanríkisþjónustu og annarrar stjórnsýslu, auk margs fólks úr atvinnu- og viðskiptalífi, ekki síst það sem átt hefur í einhverjum tengslum við Kína. Þá má greina sérstakan áhuga á réttvísinni, bæði dómurum og lögreglu, en eins er talsvert þar um fjölmiðlafólk.
Talið er að þessi 411 nöfn séu ekki nema brot af þeim Íslendingum, sem safnað hefur verið upplýsingum um, hugsanlega um 10%. Þannig má t.d. ráða að eftir eigi að koma í ljós upplýsingar um tiltekna einstaklinga, þar sem sjá má nöfn barna þeirra eða maka meðal þeirra nafna, sem þegar hafa komið í ljós. Ekki verður séð að um Íslendinga hafi verið safnað öðru en opinberum upplýsingum.
Gagnalekinn hefur vakið gríðarlega athygli um heim allan, enda er talið að í fórum kínverska fyrirtækisins séu persónuupplýsingar um 2,4 milljónir manna í nær öllum ríkjum heims, að því er fram kemur í mfjöllun um mál þetta í Morgnblaðinu í dag.
Hægt er að nálgast listann hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.