Stuðningsyfirlýsing við náttúruna undirrituð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherrra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherrra. mbl.is

Ísland var í hópi yfir 70 ríkja sem skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við náttúruna í aðdraganda 75. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir. Í yfirlýsingunni hétu ríkin því að auka metnað í loftslagsmálum, stuðla að sjálfbærum neyslu- og framleiðsluháttum og hafa loftslag, umhverfi og líffræðilega fjölbreytni að leiðarljósi við uppbyggingu í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði vernd og endurheimt vistkerfa að umtalsefni í ávarpi sínu á fundi um líffræðilegan fjölbreytileika sem haldinn var í gær í tengslum við áðurnefnt allsherjarþing. 

Guðmundur Ingi benti á nauðsyn líffræðilegs fjölbreytileika við að tryggja sjálfbærni og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. „Þær kerfislægu og áður óþekktu breytingar sem nú eiga sér stað á Norðurskautinu og öðrum viðkvæmum svæðum víða um heim kalla á að það verði strax gripið til frekari aðgerða,“ sagði Guðmundur Ingi í ávarpi sínu.

Endurheimt og vernd verði ofarlega

Þá sagði hann vernd gegn framandi ágengum tegundum og endurheimt skóglendis, votlendis og annarra mikilvægra vistkerfa eiga að vera ofarlega á dagskrá.

„Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á samlegðaráhrif þessa í aðgerðaáætlun sinni í loftslagsmálum. Ein grunnstoða hennar er endurheimt skóga og votlendis og að vinna þannig gegn landeyðingu og loftslagsbreytingum með náttúrumiðuðum lausnum sem líka stuðla að endurheimt líffræðilegs fjölbreytileika.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands en þar er að finna ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu. Áform um stofnun þjóðgarðsins hefur verið umdeild hér á landi. 

Guðmundur Ingi greindi í ávarpi sínu frá því að vinna við undirbúning stofnunar hans væri nú í fullum gangi. „Öræfin ná yfir þriðjung landsins og verða stærsti þjóðgarður í Evrópu og jafnframt stærsta framlag Íslands til náttúruverndar hingað til.“

Vegna heimsfaraldursins sækja íslenskir ráðamenn ekki þingið í New York að þessu sinni. Ávarp Guðmundar Inga á fundinum í gær var því flutt af myndbandi um miðnætti í nótt að íslenskum tíma. Hér má sjá það:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert