Fjöldi tilfella ekki í veldisvexti

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Fjöldi kórónuveirusmita er ekki í veldisvexti heldur í línulegum vexti, að sögn sóttvarnalæknis sem hefur ekki lagt fram minnisblað um hertar aðgerðir en þær eru að sögn hans í stöðugri skoðun. Aðgerðir sem eru til skoðunar eru hertari fjöldatakmarkanir og lokanir, sambærilegar þeim sem voru í fyrri bylgju faraldurs. 

„Þeir þættir sem er einkum verið að fylgjast með eru fjöldi smita á hverjum degi og sérstaklega fjöldi þeirra sem greinast utan sóttkvíar og eins veikindin inni á spítalanum, hvernig spítalinn er að höndla það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

37 smit greindust innanlands í gær, 26 þeirra utan sóttkvíar. 13 eru á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu.

Þarf að ná einhverri lendingu

Ert þú nær því að leggja fram minnisblað um tillögur um hertari aðgerðir til heilbrigðisráðherra? 

„Það er bara mikið samtal og samráð þessa dagana og þessa stundina um það. Það er búið að vera og það þarf bara að ná einhverri lendingu í því,“ segir Þórólfur. 

Spurður hvort aðgerðir verði ekki hertar nema veldisvöxtur verði eða ef Landspítali sjái fram á að ráða ekki við álagið segir Þórólfur að „sambland“ af þeim ástæðum ráði því hvort aðgerðir verði hertar. 

„Við erum að sjá töluvert mikið af veiku fólki. [...] Við erum að byrja í þessum faraldri þannig séð og ef eitthvað fer að bætast í það og ef ástandið heldur svona áfram þá gefur það náttúrulega augaleið að við munum fá dágóðan fjölda sem þarf á sjúkrahúsvist að halda með hugsanlega alvarlegum afleiðingum og það er það sem þarf að horfa til,“ segir Þórólfur.  

„Það er ekki til aragrúi af úrræðum

Spurður hvað átt sé við með veldisvexti segir Þórólfur:

„50% aukning er til dæmis veldisvöxtur. Línulegur vöxtur er ef þú sért sama fjölda á hverjum degi. Fjöldi tilfella er ekki í veldisvexti núna heldur í línulegum vexti. Þær aðgerðir sem við erum í núna halda þessu þó þannig niðri að við erum ekki með þetta í veldisvexti.“

Ef grípa þarf til aðgerða, verða það þá eins aðgerðir og í fyrstu bylgju? 

„Það er ekki til aragrúi af úrræðum. Það eru þessi takmarkandi úrræði, fjöldatakmarkanir og lokanir ákveðinnar starfsemi eins og við vorum að beita í vetur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert