Fyrirkomulag landamæraskimunar verður óbreytt til 1. desember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Allir sem koma til landsins munu því áfram þurfa að fara í skimun við komuna til landsins, sæta 4-6 daga sóttkví og fara því næst í aðra sýnatöku, nema þeir kjósi heldur 14 daga sóttkví. Gjald fyrir fyrri skimun er 9.000 krónur en sú síðari er ókeypis.
Í tilkynningunni segir að ákvörðunin sé byggð á stöðu kórónuveirufaraldursins hérlendis og erlendis ásamt öðrum viðmiðum sóttvarnalæknis. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði fyrr í vikunni að hann teldi óbreytt fyrirkomulag öruggustu leiðina út frá sóttvarnasjónarmiðum.
Tekið er fram að því geti verið breytt fyrr ef tilefni gefst til. Þá verði fyrirkomulagið metið að nýju fyrir 1. desember.