Stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur 64 einstaklinga á skrá sem ekki hafa fundist þegar vísa átti þeim úr landi undanfarin tvö ár. Þetta segir í skriflegu svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Á listanum eru bæði umsækjendur um alþjóðlega vernd og aðrir sem vísa hefur átt úr landi vegna ólöglegrar dvalar á Íslandi.
Í svari embættisins segir að ekki sé hægt að segja til um nákvæmlega hve margir eru enn hér á landi en margir hafi yfirgefið landið, hugsanlega með fölsuðum skilríkjum. Í einhverjum tilfellum hafa menn fundist hér á landi og þeim þá vísað úr landi.
Mikla athygli vakti þegar fjölskylda frá Egyptalandi fannst ekki í síðasta mánuði er vísa átti henni úr landi. Fjölskyldunni var síðar veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, en fjölmargir höfðu þá látið í ljós óánægju sína með fyrirhugaða brottvísun.