„Spurning hvort of harkalega sé farið fram“

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setur spurningarmerki við boðaðar sóttvarnaraðgerðir.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setur spurningarmerki við boðaðar sóttvarnaraðgerðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veltir því fyrir sér hvort stjórnvöld fari of harkalega fram með hertum sóttvarnaraðgerðum sem taka gildi á morgun og fela í sér 20 manna samkomutakmörk.

Myndin sýnir hversu margir eru í einangrun, á hverja 100.000 …
Myndin sýnir hversu margir eru í einangrun, á hverja 100.000 íbúa, í ólíkum landshlutum. Ljósmynd/Aðsend

Í samtali við mbl.is segir Njáll að allt önnur mynd blasi við þegar litið er til fjölda fólks í einangrun á landsbyggðinni, í samanburði við höfuðborgarsvæðið. Í Facebook-færslu sem Njáll birti í gærkvöld kemur fram að tuttugu og þrisvar sinnum líklegra sé að einstaklingur smitist á höfuðborgarsvæðinu heldur en á Norðurlandi eystra eða Austurlandi.

„Mér finnst að við ættum að geta unnið með þetta til þess að halda áfram með daglegt líf, atvinnulífið og starfsemi skólanna,“ segir Njáll og bætir við að sóttvarnaryfirvöld gætu til dæmis komið með tillögur með hliðsjón af þessum þáttum, þótt hann segist styðja þríeykið í hvívetna.

„Það vakna ákveðnar spurningar um hvort farið sé of harkalega fram á þessum svæðum þar sem fáir eru í einangrun,“ segir Njáll.

Virkni samfélagsins skipti máli

Njáll hefur stungið upp á því að komið verði upp litakóðunarkerfi svo hægt sé að eiga við veiruna í hverjum landshluta fyrir sig með viðeigandi aðgerðum.

„Í vor komu að vísu upp erfið mál, til dæmis á Hvammstanga en þau voru annars eðlis og eins og staðan er núna þá er tíðni smita í höfuðborginni gríðarlega há. Það er langur vetur framundan og við erum við að sigla inn í svartasta skammdegið. Þá skiptir máli að samfélagið sé eins virkt og kostur er á,“ segir Njáll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert