Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heimsótti skemmti- og samkomustaði í gærkvöldi og nótt og var með eftirlit með sóttvörnum. Tveir staðir þóttu ekki uppfylla reglurnar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Annars vegar var um að ræða veitingastað í miðbænum, en þar voru allt of margir gestir og starfsmenn ekki með grímu. Hins vegar var um að ræða sal í útleigu, en þar voru einnig of margir gestir og öðrum sóttvörnum ekki framfylgt.
Samtals voru 97 mál skráð í dagbók lögreglu frá klukkan fimm síðdegis í gær til klukkan fimm í morgun, en flest þeirra voru nokkuð hefðbundin. Þó var talsvert um hávaðakvartanir í heimahúsum fram eftir allri nóttu eins og síðustu helgar.