„Varasamt“ að grípa til aðgerða eftir landshlutum

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir.
Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að sá árangur sem hann vilji sjá af þeim hertu aðgerðum sem taka gildi á miðnætti í kvöld sé að færri smitist af kórónuveirunni og að álag á Landspítala minnki. Hann segir veiruna nokkuð útbreidda í samfélaginu sem sjáist fyrst og fremst á því hve fáir eru í sóttkví við greiningu. Einungis um 20% þeirra 47 sem greindust í gær voru í sóttkví.

Hann segir einnig að varasamt geti verið að grípa til mishertra aðgerða eftir landshlutum. Smit greinist um allt land og þó svo að færri greinist í einum landshluta en öðrum geti sú staða breyst hratt. Hann vill því forðast að vera í „eltingarleik“ við veiruna milli landshluta.

„Markmið þessara aðgerða er fyrst og fremst að minnka heildarfjölda smita á landsvísu,“ segir Þórólfur um þann árangur sem hann vilji sjá af hertum aðgerðum. Tuttugu manna samkomutakmörkun tekur gildi á miðnætti í kvöld.

„Einnig erum við að reyna að vinna gegn auknu álagi á Landspítalanum. Það fjölgar enn á Covid-göngudeildinni og margir þar eru nokkuð veikir þannig að það má búast við fleiri innlögnum á næstunni. Svo verðum við líka að reyna að halda smitum meðal viðkvæmra hópa í algjöru lágmarki og helst reyna að koma í veg fyrir að slíkt gerist með öllu. Þá á ég við hjúkrunarheimili og þess háttar.“

Róður spítalans að þyngjast

Þórólfur segir viðbúið að smituðum sjúklingum á Landspítalanum muni fjölga næstu daga. Þó svo að einhverjir séu á batavegi, sem sé jákvætt, þá hraki jafnmörgum og jafnvel fleirum.

„Það útskrifuðust þrír Covid-sjúklingar af Landspítalanum í gær sem er auðvitað jákvætt, en á móti kemur að það lögðust þrír inn á móti þeim þremur sem útskrifuðust. Svo fjölgar alltaf á Covid-göngudeildinni eins og ég sagði áðan.“

Þórólfur segist vona að ekki komi til dauðsfalla eins og í vor. Útlitið sé hins vegar dökkt.

„Ég vona auðvitað innilega að það komi ekki til dauðsfalla. Hins vegar vitum við alveg hvert ástandið er þegar fólk leggst inn á spítala og inn á gjörgæslu eins og verið hefur.“

Hann segir það ekki hafa verið gert upp hvort þróun veirunnar sé á þá leið að yngri sjúklingar séu orðnir líklegri til þess að veikjast alvarlega.

„Það hefur ekki verið svona kerfisbundið upp, nei. Meðalaldur þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús er ennþá hærri en meðalaldur þeirra sem eru smitaðir. Ég fæ því ekki séð að veiran sé að leggjast eitthvað þyngra á yngra fólk núna en verið hefur. Það er þó fólk á öllum aldri sem lagst hefur inn á sjúkrahús, alveg frá þrítugsaldri og upp í sjötugsaldur, þannig að ungt fólk getur auðvitað veikst alvarlega eins og aðrir.“

Varasamt að skipta upp eftir landshlutum

Þórólfur segir að ekki fáist endilega góður árangur af því að grípa til mismunandi sóttvarnaaðgerða eftir landshlutum.

„Þessi veira er alls staðar á landinu og smit eru að greinast í öllum landshlutum. Ef við gripum til hertra aðgerða á höfuðborgarsvæðinu en ekki annars staðar þá næðum við kannski góðum tökum á veirunni í einum landshluta á meðan staðan versnaði kannski annars staðar. Þá myndum við þurfa að losa um á höfuðborgarsvæðinu og herða aðgerðir úti á landi.

Það er ekki gott að vera í slíkum eltingaleik við þessa veiru og við viljum auðvitað ná að keyra heildarfjölda smita niður á landsvísu, þess vegna grípum við til sömu aðgerða alls staðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert