Von er á nýju spálíkani frá COVID-teymi Háskóla Íslands síðar í vikunni en teymið segir að veiran sé að taka kipp og rauð flögg alls staðar. „Við erum ekki að ná tökum á ástandinu.“
Þetta kemur fram í opinni færslu á facebooksíðu Thors Aspelund, prófessors í líftölfræði við Háskóla Íslands, og fleiri úr COVID-teymi Háskóla Íslands.
„Smitstuðullinn hefur farið upp aftur. Var að nálgast einn og við viljum ná honum undir einn. Nú rís hann í 2,5 (spábil um 2-4). Ef smitstuðullinn helst lengi fyrir ofan 1 endar ástandið í veldisvísisvexti. Ef hann er t.d. 2 smitar einstaklingur að jafnaði tvo aðra, þeir smita svo tvo aðra og koll af kolli.
Í samræmi við þessa óheillaþróun tekur spá um fjölda smita líka kipp. Fjöldinn gæti aukist hratt en óvissan er reyndar mjög mikil,“ segir í færslunni.
Þegar tölur um ný smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu eru skoðaðar sést að smitin eru 158,3 á Íslandi, langflest af Norðurlandaþjóðunum.
Flest eru smitin á Spáni, 319,3, og Tékklandi, 303,3. Í Frakklandi eru 245,4 smit á hverja 100 þúsund íbúa, 230,9 í Hollandi og 205,5 í Belgíu. Í Lúxemborg eru þau 161,4.