Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort full samstaða væri innan ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaaðgerðir.
Spurningunni varpaði þingmaðurinn fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma í morgun. Hún sagði það athyglisvert að fylgjast með ríkisstjórninni og að hún tæki eftir því að fundir hennar væru að lengjast, þegar fjallað er um sóttvarnaaðgerðirnar.
Forsætisráðherra svaraði í pontu:
„Er eining í ríkisstjórninni? Já, það er eining í ríkisstjórninni um þessar aðgerðir. Þó að fundir séu langir segir það ekki neitt annað en það að fólk vill fara ítarlega yfir aðgerðirnar og stöðuna.“
Bætti Katrín við að staðan ylli „okkur öllum áhyggjum“.
Þorgerður Katrín sagðist þá telja það mjög mikilvægt að þingið yrði virkjað í ríkari mæli.
„Mér hugnast það ekki sérstaklega þegar ég sé að ríkisstjórnin er að fá sérfræðiálit um það hversu langt hún megi ganga í stjórnvaldsákvörðunum. Gott og vel. Ef það er til þess að vita hver mörkin eru þá er það fínt,“ sagði hún.
„En ég vil beina því til hæstvirts ráðherra og ríkisstjórnar að ég tel farsælla að virkja lýðræðislegan vettvang og hann er hér. Hann er Alþingi Íslendinga. Og vitið til, hér er meiri samstaða en fólk grunar og meiri stuðningur við margar af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að setja fram. En við segjum líka: Komið með það sem hefur ekki dugað og veitið svör. Eigum við að nefna brúarlán? Þau hafa ekki virkað. Hvaða önnur úrræði ætlið þið t.d. að bjóða ferðaþjónustunni upp á?“
Katrín sagði það mikilvægt sem Þorgerður Katrín segði, samstaðan á þingi væri oft meiri en fólk grunaði.
„Það er þannig og mér finnst sjálfri að umræðan sem við höfum átt, alveg frá því í vor, um aðgerðir og ráðstafanir til að bregðast við faraldrinum, hafi verið af hinu góða. Mér finnst umræðan í þinginu hafa verið heilbrigð og ég held að við séum um margt öfundsverð að því leyti.“
Hún hélt áfram og svaraði spurningu Þorgerðar um aðgerðir ríkisstjórnarinnar:
„Í fyrsta lagi erum við auðvitað búin að boða umfangsmiklar aðgerðir, m.a. til að mæta rekstraraðilum í vanda. Þar er ferðaþjónustan auðvitað fyrirferðarmest en ég vil líka nefna til að mynda þau sem starfa innan skapandi greina. Þeim verður mætt með ráðstöfunum af hálfu ríkisstjórnarinnar sem við munum leggja til hér við Alþingi og munu birtast í fjáraukalagafrumvarpi,“ sagði forsætisráðherra.
„Ég nefni sömuleiðis tímabundna lækkun tryggingagjalds, sem var tilkynnt á dögunum, til að styðja atvinnulífið í gegnum þennan skafl. Við munum ræða slíkar ráðstafanir í fjármálaáætlun, bæði til skemmri og lengri tíma. Háttvirtur þingmaður nefndi opinbera fjárfestingu sem dæmi. Hún hefur aukist gríðarlega í tíð þessarar ríkisstjórnar en þó hafa einhverjar framkvæmdir tafist. Ríkisstjórninni er ekki um að kenna í því.“
Loks vék hún að vísun Þorgerðar til sérfræðiálits um stjórnvaldsákvarðanir.
„Háttvirtur þingmaður vitnaði til greinargerðar, væntanlega Páls Sveinssonar, um lagaheimildir sóttvarnalaga þegar hún nefndi lagaheimildir til stjórnvaldsákvarðana. Auðvitað er mjög mikilvægt á hverjum tíma að stjórnvöld iðki ákveðna sjálfsgagnrýni og leiti til færustu sérfræðinga til að fara yfir valdheimildir laganna.
Þar komu fram nokkrar mjög góðar ábendingar sem munu koma á borð Alþingis við endurskoðun sóttvarnalaga en líka sú meginniðurstaða að stjórnvöld hafa mjög ríkar valdheimildir til að bregðast við ástandi eins og nú er.“