Gler var brotið í tveimur strætóskýlum í Ártúni með þeim afleiðingum að glerbrot lágu á víð og dreif á gangstéttinni í hádeginu í dag.
„Mér finnst eins og þeir hafi gjörsamlega gengið berserksgang þarna,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, sem kannaðist við skemmdarverkin þegar haft var samband við hann.
Hann bendir á að sveitarfélögin hafi forræði yfir biðstöðvum Strætó og að rekstraraðili strætóskýlanna sé Billboards ehf. Hann sjái um að setja ný gler í skýlin.
Guðmundur Heiðar segist reglulega fá myndir af gleri sem búið er að brjóta í strætóskýlum. „Þetta er mjög leiðinlegt,“ segir hann og bætir við að skjólið fyrir farþega fari, auk þess sem hætta skapist vegna allra glerbrotanna.
„Um leið og við fáum ábendingu um þetta reynum við að láta borgina eða þessa rekstraraðila vita,“ segir hann.