Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er að skrifa minnisblað til heilbrigðisráðherra þar sem lagðar verða fram tillögur um hertar aðgerðir gegn kórónuveirunni á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess fær almenningur sterk tilmæli um að hafa varann á vegna veirunnar.
Þetta segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Þessar hertu aðgerðir og tilmæli eru sett fram í ljósi fjölda smita síðustu sólarhringa og vegna mats á því að smitstuðullinn sé orðinn það hár að hann virðist vera kominn í veldisvöxt á höfuðborgarsvæðinu, að því er Víðir greinir frá.
Allir höfuðborgarbúar eru hvattir til að vera eins mikið heima og kostur er og til að vera ekki á ferðinni til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Vernda þarf viðkvæma hópa og m.a. eru tilmæli um að takmarka heimsóknir, til dæmis á hjúkrunarheimili. Óskað er eftir því að aðeins einn á hverju heimili versli í matinn.
Þeir sem standa fyrir viðburðum á höfuðborgarsvæðinu eru beðnir um að fresta þeim næstu tvær vikurnar. Það sama gildir um ýmsa klúbba og hópa sem koma saman. Tilmæli eru um að þeir geri hlé á starfsemi sinni.
Almennt varðandi starfsemi á höfuðborgarsvæðinu þá er miðað við að takmarka fjölda eins mikið og kostur er. Sótthreinsun, til dæmis á þröngum stöðum, og fjarlægðartakmarkanir þurfa einnig að vera í lagi.
Tilmælin beinast einnig að því að takmarka umferð fullorðinna í kringum börn á grunn- og leikskólaaldri sem stunda íþróttir. Íþróttafélög eru einnig hvött til að gera hlé á íþróttastarfi næstu tvær vikurnar og að keppnisferðum út á land verði frestað.
„Við vorum undir það búin að þetta gæti orðið staðan, að við séum með þessar tölur áfram á næstunni,“ segir hann um þann fjölda smita sem greindist síðasta sólarhringinn, eða 99 innanlandssmit. „Þess vegna viljum við fara fram með sterkari tilmæli,“ segir Víðir og bætir við að einhverjum reglum verði hugsanlega breytt. Hann hvetur fólk til að taka þátt í þessu átaki enda þurfi að grípa hratt inn í málin og stöðva útbreiðslu veirunnar. Hann segir að árangurinn af þessum aðgerðum sjáist ekki fyrr en eftir um tíu daga.
Fjöldi smita sem greindist í gær er sá mesti sem greinst hefur á einum degi síðan 1. apríl í vor þegar jafn mörg ný smit greindust. Aðeins einu sinni hafa fleiri greinst, en það var 24. mars þegar 106 ný smit greindust sama daginn.