Meirihluti segist ekki munu kjósa VG aftur

Ríkisstjórnarflokkarnir VG og Framsóknarflokkurinn mælast samanlagt með ríflega 18% fylgi.
Ríkisstjórnarflokkarnir VG og Framsóknarflokkurinn mælast samanlagt með ríflega 18% fylgi. mbl.is/Eggert

Rúmlega helmingur kjósenda Vinstri-grænna í síðustu alþingiskosningum sem tóku afstöðu í nýrri könnun Maskínu á fylgi stjórnmálaflokka ætlar ekki að kjósa flokkinn í næstu kosningum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu Maskínu um fylgi flokkanna.

Sjálfstæðisflokkur er eftir sem áður stærsti flokkurinn en hann mælist með tæplega 23% fylgi, Samfylkingin mælist með tæp 18%, Píratar tæp 16%, Viðreisn 14%, VG með 10,4%, Framsókn með tæp 9%, Miðflokkurinn með tæp 6% og Flokkur fólksins 5,5%. 

„Af þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast ætla tæplega 82% að kjósa flokkinn aftur nú. Þau 18% sem eftir standa fara að mestu leyti til Miðflokksins, eða 7%, og 4,5% til Viðreisnar.

Tveir af hverjum þremur sem kusu Framsóknarflokkinn síðast ætla að kjósa hann aftur nú. Rösklega 10% ætla að kjósa Flokk fólksins, rösklega 7% Pírata, en 4-5% Miðflokkinn og Samfylkinguna.

Einungis innan við helmingur þeirra sem kusu Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í síðustu kosningum ætlar að gera það aftur nú. Rúmlega 26% þeirra ætla að kjósa Samfylkinguna og næstum fimmtungur Pírata.

Hátt í tveir af hverjum þremur sem kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum ætla að kjósa hana aftur nú. Rúmlega 14% ætla að kjósa Viðreisn núna og um 10% Pírata. Þá ætla rösklega 4% að kjósa VG nú.

Rösklega 78% þeirra sem kusu Pírata fyrir þremur árum ætla að kjósa þá aftur nú en hin um það bil 20 prósentin fara nokkuð jafnt til Samfylkingar og Viðreisnar.

Næstum fjórir af hverjum fimm sem kusu Viðreisn síðast ætla að gera það aftur nú en af þeim sem Viðreisn missir fara flestir til Samfylkingar,“ segir í frétt á heimasíðu Maskínu um niðurstöður könnunar. 

Um það bil ár er til næstu alþingiskosninga.

Samkvæmt könnun Maskínu segjast tæplega helmingur kjósenda VG ætla að …
Samkvæmt könnun Maskínu segjast tæplega helmingur kjósenda VG ætla að kjósa flokkinn aftur í næstu kosningum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert