Með sóttvarnalögum er ráðherra ekki aðeins gefin heimild til að bregðast við útbreiðslu smitsjúkdóma heldur hvílir enn fremur frumkvæðisskylda á ráðherrum og gæti algjört athafnaleysi varðað refsingu samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum.
Þetta segir Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, en hann mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun og kynnti álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana. Sagði hann þó ekki ástæðu til annars en að ætla að ráðherrar hefðu brugðist við; vangaveltur sneru frekar að því hvort meðalhófs hefði verið gætt.
Páll sagði að slíkt mat á meðalhófi væri án efa erfiðasta viðfangsefnið. „Það gerir allt flókið hvað við þekkjum veiruna lítið, sem og sú staðreynd að við svipaðar aðstæður hafa sömu ráðstafanir ekki alltaf komið eins út,“ sagði Páll á fundinum, sem var fjarfundur og streymt á alþingisrásinni.
Til stendur að endurskoða sóttvarnalög og er það meðal ástæðna fyrir því að Páll var fenginn til álitsgerðar. Sagðist hann finna að því að mörg lykilhugtök sóttvarnalaga væri ekki skilgreind sérstaklega í lögunum, sem gæti valdið túlkunarvanda. Mörg væru að vísu fengin úr alþjóðaheilbrigðismálareglugerðinni en þó ástæða til að skýra nánar í lögum.