Röð í skimun vegna COVID-19 við Suðurlandsbraut 34 er reglulega löng í dag og segir verkefnisstjóri sýnatöku Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að sýnatakan hafi tekið gífurlegt stökk eftir síðustu helgi.
„Það er allt að springa, það er brjáluð röð. Þetta er aðallega fólk sem er að koma í sóttkvíarskimun. Það er engin röð í einkenna sýnatöku en það er bara svo gífurlegur fjöldi að koma í sóttkvíarsýnatöku,“ segir Agnar Darri Sverrisson, verkefnastjóri sýnatöku Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Tvær raðir eru í sýnatökuna, annars vegar er röð fyrir þá sem koma í sýnatöku vegna einkenna COVID-19 og hins vegar röð fyrir þá sem koma í sóttkvíarskimun þar sem þeir hafa verið útsettir fyrir kórónuveirusmiti. Þeir sem eru með einkenni þurfa ekki að bíða í röð eins og staðan er núna. „Enda viljum við helst ekki að veikt fólk þurfi að standa úti í röð.“
Kórónuveirusmitum fer hratt fjölgandi í samfélaginu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Spurður hvort álagið á sýnatökunni sé að aukast í takt við smitfjöldann segir Agnar:
„Einkennasýnatakan tók gífurlegt stökk eftir helgina og núna er sóttkvíin að fylgja þar á eftir. Það eru náttúrulega bara bein tengsl þar á milli. Við höndlum þetta jafnt og þétt, við getum ekkert unnið hraðar og erum á yfirsnúningi.“