„Brjáluð röð“ í sóttkvíarskimun

Röð í skimun vegna COVID-19 við Suður­lands­braut 34 er reglu­lega löng í dag og seg­ir verk­efn­is­stjóri sýna­töku Heilsu­gæsl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu að sýna­tak­an hafi tekið gíf­ur­legt stökk eft­ir síðustu helgi.

„Það er allt að springa, það er brjáluð röð. Þetta er aðallega fólk sem er að koma í sótt­kví­ar­skimun. Það er eng­in röð í ein­kenna sýna­töku en það er bara svo gíf­ur­leg­ur fjöldi að koma í sótt­kví­ar­sýna­töku,“ seg­ir Agn­ar Darri Sverr­is­son, verk­efna­stjóri sýna­töku Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. 

„Erum á yf­ir­snún­ingi“

Tvær raðir eru í sýna­tök­una, ann­ars veg­ar er röð fyr­ir þá sem koma í sýna­töku vegna ein­kenna COVID-19 og hins veg­ar röð fyr­ir þá sem koma í sótt­kví­ar­skimun þar sem þeir hafa verið út­sett­ir fyr­ir kór­ónu­veiru­smiti. Þeir sem eru með ein­kenni þurfa ekki að bíða í röð eins og staðan er núna.  „Enda vilj­um við helst ekki að veikt fólk þurfi að standa úti í röð.“

Kór­ónu­veiru­smit­um fer hratt fjölg­andi í sam­fé­lag­inu, sér­stak­lega á höfuðborg­ar­svæðinu. Spurður hvort álagið á sýna­tök­unni sé að aukast í takt við smit­fjöld­ann seg­ir Agn­ar:

„Ein­kenna­sýna­tak­an tók gíf­ur­legt stökk eft­ir helg­ina og núna er sótt­kví­in að fylgja þar á eft­ir. Það eru nátt­úru­lega bara bein tengsl þar á milli. Við höndl­um þetta jafnt og þétt, við get­um ekk­ert unnið hraðar og erum á yf­ir­snún­ingi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert