Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, viðraði þær hugmyndir í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að fólk fengi að ráðstafa hluta útvarpsgjaldsins til einkarekinna fjölmiðla eftir eigin hentisemi.
Útvarpsgjald næsta árs er 18.300 krónur sem rennur til Ríkisútvarpsins og er áætlað að skili miðlinum 4.500 milljónum króna á næsta ári. Spurði Bergþór Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvernig honum hugnaðist að fólk fengi til dæmis að ráðstafa tíu prósentum þess fjár til annarra miðla. Það gæti skilað miðlum um 450 milljónum króna, álíka mikið og ríkið veitir einkareknum miðlum í nýsamþykkta fjölmiðlastyrki.
„Þarna væri hægt að hugsa sem svo að t.d. gætu menn valið þrjá miðla og þá gæti einhver valið að styðja Fréttablaðið, einhver Morgunblaðið, einhver DV, einhver Stundina, einhver Kjarnann, einhver Fótbolta.net og svo framvegis,,“ sagði Bergþór.
Bjarni sagði hugmyndina áhugaverða en að hún væri þó ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. „Hún myndi vekja upp margar grundvallarspurningar. Eigum við að reka almannaútvarp og hvernig eigum við að fjármagna það,“ sagði hann. „Mér þykir sem það sé breið samstaða um ákveðið lykilhlutverk sem almannaútvarp þarf að framfylgja.“
Bjarni beindi umræðunni því næst að auglýsingatekjum RÚV, sem skila stofnuninni um 1.700 milljónum króna á ári. RÚV væri að vissu leyti sem einstofna tré með rætur í ríkissjóði sem yxi svo hátt að aðrir fjölmiðlar sæju ekki sólina, visnuðu og dæju jafnvel. Sagði hann „mikið rúm“ fyrir umræðu um auglýsingatekjur RÚV og áhrifum þeirra á samkeppnisskilyrði annarra fjölmiðla. Það væri enda mjög í anda sjálfstæðisstefnunnar að hjálpa mönnum til sjálfshjálpar með því að gera einkareknum miðlum kleift að fá stærri sneið af auglýsingamarkaðnum.