Kennarar fái að vinna meira utan skóla

Í nýjum kjarasamningi, sem enn er óstaðfestur, er kveðið á …
Í nýjum kjarasamningi, sem enn er óstaðfestur, er kveðið á um aukinn sveigjanleika grunnskólakennara til að vinna utan vinnustaðarins. mbl.is//Hari

Félag grunnskólakennara skrifaði undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í gær, eftir það sem formaður félagsins, Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, kallar „langa og stranga vegferð sem tók nokkrar beygjur.“ Hún telur félagið hafa gert það sem hægt var á þessum tímapunkti.

Kennarar höfðu verið samningslausir í 16 mánuði þangað til loks tókst að semja. Þorgerður segir í samtali við mbl.is að nýr samningur kristallist í tveimur þáttum. 

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara. Ljósmynd/Aðsend

„Annars vegar er það lífskjarasamningshækkun í krónutölu, þannig að kennarar verða ekki af þeirri kjarabót, og hins vegar var tryggt í samningnum að farið verði í að skoða það sérstaklega hvernig auka má sveigjanleika í starfi kennara,“ segir Þorgerður.

Kostur á aukinni fjarvinnu

Með auknum sveigjanleika á hún við að kennarar fái aukið svigrúm til að vinna óstaðbundið ýmis verkefni utan kennslu, svo sem fundi ýmsa hvort sem það er við foreldra eða aðra starfsmenn. 

Að sögn Þorgerðar er hvöt í samningnum um að liðka fyrir slíkum ráðstöfunum í auknum mæli. „Þar með erum við að draga fram þá nútímalegu sýn að kennarar eru þekkingarstarfsmenn sem þurfa eins og aðrir ákveðið rými til að sinna starfinu sem er kennsla,“ segir hún.

Í alheimsfaraldri sem bitnar á framlínufólki

Atkvæðagreiðsla fer fram um samninginn næstu daga og niðurstaða þarf að liggja fyrir 23. október. „Við leggjum þetta fram í krafti þess að við töldum okkur vera að gera það sem við gátum á þeim tímapunkti sem við erum stödd á. Þarna eru ákveðin verðmæti fólgin í þeirri staðfestingu sem felst í þessu samkomulagi á að kennarar séu þekkingarstarfsmenn. Þó að við vitum það, er nú búið að segja það.“

Að öðru leyti segir Þorgerður mikla útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi skapa mjög flókna stöðu fyrir kennara.

„Eitt af því sem var líka flækja í þessu var að vera samningslaus allan þennan tíma og vonandi getum við nú dregið strik í sandinn varðandi það. Hitt er að ástandið í skólanum og í samfélaginu er grafalvarlegt. Því skiptir miklu máli að farin verði sú leið sem tókst svo vel síðast, að við leggjumst öll á árarnar til að kveða þetta niður. Við erum í alheimsfaraldri sem bitnar mjög á framlínufólki eins og kennurum.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert