Styðja listgjörning, ekki undirskriftasöfnun

Myndin sem prýddi umrædda heilsíðuauglýsingu.
Myndin sem prýddi umrædda heilsíðuauglýsingu.

Á meðal aðila sem mátti halda að styddu undirskriftasöfnun vegna þjóðaratkvæðagreiðslu í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag voru utanríkisráðuneytið og lista- og menningarráð Kópavogs 2018.

Í tilkynningu sem barst í dag er tekið fram að sú sé ekki raunin. Þessir aðilar hafi stutt listgjörning, ekki undirskriftasöfnunina. 

„Af auglýsingu í Morgunblaðinu í dag, 8. október 2020, má ráða að ýmsir aðilar og stofnanir styðji undirskriftarsöfnun vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 um nýja stjórnarskrá. Hið rétta er að umræddir aðilar hafa með einum eða öðrum hætti stutt listgjörning eftir Libiu Castro og Ólaf Ólafsson og Töfrateymið á undanförnum árum. Þar á meðal var sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn haustið 2019 og Lista-og menningarráð Kópavogs 2018“, segir í tilkynningu.

Hér má sjá auglýsinguna í heild sinni.
Hér má sjá auglýsinguna í heild sinni.

Þá er velvirðingar beðist á þeim misskilningi sem auglýsingin kann að hafa valdið.

Menningarstofa Akureyrar á meðal stuðningsaðila

Auglýsinguna prýddi mynd af Alþingishúsinu skreyttu með risastórum fána sem á stóð „Nýju stjórnarskrána takk!“ Þar var athygli vakin á undirskriftasöfnun vegna þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 um nýja stjórnarskrá. 27.000 höfðu skrifað undir þegar auglýsingin var birt. 

Umrædd mynd heitir „Í leit að töfrum - tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland“. Hún er eftir Libiu Castro, Ólaf Ólafsson og Töfrateymið. Undir myndinni og útlistun á höfundarrétti hennar voru stuðningsaðilar tilgreindir. Þeir eru sum sé stuðningsaðilar listgjörnings umræddra listamanna en þegar litið er á auglýsinguna er það ekki fullkomlega skýrt. Gæti lesandi því jafnvel haldið að um sé að ræða stuðningsaðila undirskriftasöfnunarinnar.

Stuðningsaðilar listamannanna sem tilgreindir eru eru eftirfarandi: Nordic Culture Point, Nordic Culture Fund,  Listasafn Reykjavíkur, Listahátíð í Reykjavík, Listahátíðin Cycle, Tónlistarsjóður, Mondriaan Fund, Menningarstofa Akureyrar, Myndlistarsjóður, Utanríkisráðuneytið, Lista- og menningarráð Kópavogs, Stjórnarskrárfélagið og Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá. 

Tilkynninguna senda Libia Castro og Ólafur Ólafsson, Sunna Ástþórsdóttir, sýningarstjóri Í leit að töfrum, Guðný Guðmundsdóttir, sýningarstjóri Í leit að töfrum og listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar Cycle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert