Talsverður fjöldi fólks á eftir að koma veikt úr sóttkví ef hlutfall þeirra sem veikjast í sóttkví vegna COVID-19 helst óbreytt, að sögn Þórólfs Reynissonar sóttvarnalæknis, sem biðlar til fólks að íhuga hvernig veiran smitist, hún lesi hvorki reglugerðir heilbrigðisráðherra né tilmæli sóttvanalæknis.
Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að búast mætti við svipuðum daglegum smitfjölda áfram. Hann vildi alls ekki að fjöldinn hækkaði því þá ættu fleiri eftir að veikjast alvarlega.
Þórólfur sagði eitthvað um það að fólk væri að leita leiða til þess að fara á svig við reglur, til dæmis með því að færa líkamsrækt í hópum út eða með því að breyta skilgreiningu á starfsemi. Það þætti honum leitt að heyra en flestir færu eftir reglum. Ef nokkrir gera það ekki gæti það þó verið nóg til að setja af stað faraldur.
Þórólfur hvatti fólk sérstaklega til að fresta ónauðsynlegri hópamyndun um tvær vikur. Fólk þurfi sjálft að vega og meta hverja sé öruggt að hitta. Vonlaust sé fyrir hann að gefa upp forskrift í hvert sinn.
Smit hafa komið upp í íþróttastarfi undanfarið og borist þannig inn í skólakerfið.
Aðgerðir voru hertar í upphafi viku. Þórólfur hefur mikla trú á því að þær muni vera árangursríkar en það fari eftir því hvort fólk framfylgi reglum og sýni samstöðu. Mikilvægt sé að horfa langt fram í tímann þar sem smitin skili innlögnum á spítala eftir 2-3 vikur. Ef smitfjöldi helst áfram í kringum 100 þá munum við yfirkeyra spítalann.