Dagur vill minnka ofbeldi um helming

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur er á meðal þeirra 60 …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur er á meðal þeirra 60 sem undirrituðu yfirlýsinguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur ásamt yfir 60 öðrum borgarstjórum víðsvegar í heiminum, skrifað undir yfirlýsingu um að ná ofbeldi niður um helming frá því sem nú er fyrir árið 2030. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Sameiginleg yfirlýsing þeirra var afhent aðalritara Sameinuðu þjóðanna á Alþjóða friðardaginn þann 21. september síðastliðinn. 

Dagur mun vinna að þessu markmiði með ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar í samvinnu við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og þeim fjölmörgu grasrótarsamtökum sem hafa í gegnum árin unnið að því markmiði að minnka ofbeldi í samfélaginu. Nú þegar vinna ofantaldir aðilar saman að verkefninu Saman gegn ofbeldi  sem staðið hefur í sex ár þar sem markmiðið er að draga úr heimilisofbeldi.

„Með því að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu setja borgarstjórar það í forgang að sporna við ofbeldi í heiminum. Á hverju ári týnir fjöldi fólks lífi í átökum sem tengjast öfgahyggju, glæpum og heimilisofbeldi. Covid-19 faraldurinn hefur haft mikil félagsleg, efnahagsleg og pólitísk áhrif í heiminum. Hann hefur einnig haft í för með sér aukið ofbeldi í öllum stéttum samfélagsins. Þar er helst að nefna heimilisofbeldi og stafrænt ofbeldi þar sem þolendur eru konur og börn og ýmsir viðkvæmir hópar í samfélaginu“, segir í tilkynningunni.

„Borgarstjórarnir sem skrifa undir yfirlýsinguna eru hluti af samtökum borgarstjóra, Global Parliament of Mayors, sem vilja draga úr ofbeldi með forvörnum og félagslegum og efnahagslegum aðgerðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert