Katrín segist aldrei hafa notað Tinder

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hefði ég hitt maka minn með aðstoð Tinder?“ spyr Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í upphafi facebookfærslu þar sem hún greinir frá skipun nefndar sem á að skila tillögum varðandi gervigreind.

Katrín segist aldrei hafa nýtt sér stefnumótaforritið en bætir við að tæknin sé farin að hafa raunveruleg áhrif á hvernig fólk kynnist.

Hún segir eitt af stórum verkefnum kjörtímabilsins vera að leggja grunninn að því hvernig íslenskt samfélag getur tekist á við fjórðu iðnbyltinguna. „Aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna var kynnt fyrr á þessu ári en eitt af verkefnum forsætisráðuneytisins er að móta stefnu um gervigreind. Ég hef því skipað nefnd sem er ætlað að skila tillögum að skýrri framtíðarsýn um hvernig íslenskt samfélag geti unnið með gervigreind öllum til hagsbóta,“ segir Katrín.

Þær spurningar sem nefndin á að svara eru: Hver eru réttindi Íslendinga gagnvart nýrri tækni? Hvert á hlutverk tækni og gervigreindar að vera í íslensku samfélagi? Hvaða gildi á íslenskt samfélag að hafa að leiðarljósi við innleiðingu nýrrar tækni? Á hvaða vettvangi mun Ísland ræða og leysa álitamál sem koma upp er varða innleiðingu eða notkun nýrrar tækni? Efnt verður til umræðu í samfélaginu um þessar stóru spurningar.

Nefndina skipar fólk með fjölbreyttan bakgrunn og sérfræðiþekkingu sem snýr meðal annars að siðfræði, tækni, vinnumarkaði og samfélagslegum breytingum vegna nýrrar tækni að því er Katrín greinir frá. Nefndin skilar af sér 1. febrúar á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert