Komið að skuldadögum

Búast má við því að mörg fyrirtæki ferðaþjónustunnar fari í …
Búast má við því að mörg fyrirtæki ferðaþjónustunnar fari í gjaldþrot eða hætti rekstri í vetur. mbl.is/Þorgeir

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að sex mánaða greiðslufrestur er lánastofnanir veittu fyrirtækjum í ferðaþjónustunni vegna Covid-faraldursins hafi runnið út 1. október. 

Ekki hefur enn komið til fjöldagjaldþrota í ferðaþjónustu en ljóst að veturinn verður erfiður að sögn Jóhannesar. Tvær ástæður séu fyrir því að ekki hefur komið til gjaldþrota að sögn hans. Annars vegar aðgerðir ríkisins um greiðslur til fyrirtækja fyrir fólk á uppsagnarfresti og í gegnum hlutabótaleiðina. Hins vegar ákváðu lánastofnanir að fresta innheimtu lána um sex mánuði. Sá frestur rann út 1. október. 

Hafa lagt húsnæði og landareignir fjölskyldunnar undir 

Jóhannes segir að aðgerðir ríkisins hafi skipt miklu máli. „Þannig lækkaði launakostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu sem annars hefði rekið mikinn fjölda þeirra í gjaldþrot strax í sumar. Áhrif aðgerða ríkisins gerðu fyrirtækjum kleift að lækka kostnað og endurskipuleggja reksturinn,“ segir Jóhannes.  

Hann segir að nú sé komið að þeirri spurningu hvað fjármálastofnanirnar muni gera. „Núna er komið að þessu og það verður að bíða og sjá hvað fjármálastofnanirnar ætla að gera með sínum kúnnum,“ segir Jóhannes. 

Jóhannes Þór Skúlason.
Jóhannes Þór Skúlason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bendir á að gríðarlegar eignir séu í ferðaþjónustunni. Þannig hafi t.a.m. verið fjárfest fyrir 70 milljarða á ári síðustu ár. Áþreifanlegustu eignirnar eru t.a.m. hótelin á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta eru ekki bara hótelkeðjur og ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa fjárfest í þessu heldur einnig fasteignafélög,“ segir Jóhannes. 

Hann bendir á að í ferðaþjónustunni hafi margir lagt húsnæði og landareignir undir til að byggja upp reksturinn. 

„Í langflestum tilfellum er þó um að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki um allt land. Í flestum tilfellum hafa eigendur þurft að veðsetja eigin húsnæði fjölskyldunnar t.a.m., til að fjárfesta og byggja upp reksturinn,“ segir Jóhannes. 

Fjöldagjaldþrot í vetur 

Munum við horfa upp á fjöldagjaldþrot í vetur? 

„Það verður að horfast í augu við það að það yrði mjög óeðlilegt ef það verður ekki talsverður fjöldi sem mun hætta rekstri eða fara í gjaldþrot. Ef við segjum að 20% fyrirtækja muni annaðhvort hætta rekstri eða fara í gjaldþrot þá er það ekki óeðlilegt. En ef við erum farin að horfa upp á 30-50% gjaldþrot þá þarf að velta því upp hvenær tekið verður í bremsuna því það skiptir máli upp á viðspyrnuna að hér séu fyrirtæki sem geta tekið við ferðamönnum,“ segir Jóhannes.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka