Reiknar með álíka háum tölum næstu daga

Víðir Reynisson ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.
Víðir Reynisson ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn reiknar með því að svipað háar tölur um fjölda kórónuveirusmita verði hér á landi næstu daga en 97 ný smit greindust innanlands í gær.

„Það má búast við sambærilegum tölum, að þetta verði í kringum 100 smit næstu dagana,“ segir hann og vonast til að við förum að sjá breytingu um miðja næstu viku. Þá verði smitum búið að fækka það mikið að hægt verði að endurskoða reglur og tilmæli.

Hann reiknar ekki með því að upplýsingafundir verði haldnir um helgina, nema eitthvað sérstakt gerist.

Fjöldi daglegra kórónuveirusmita hefur aukist mikið síðustu daga, sérstaklega á …
Fjöldi daglegra kórónuveirusmita hefur aukist mikið síðustu daga, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk hafi sína „búbblu“ litla

Spurður hvort almannavarnir séu með sérstök tilmæli fyrir almenning um helgina segir Víðir aðalatriðið að fólk taki því rólega, njóti þess að vera til „en hafi sína búbblu eins litla og mögulegt er“. Hann bendir á fregnir af nýju spálíkani og tölur dagsins varðandi fjölda smita og segir best að hafa samskipti við eins fáa og mögulegt er.

Hvað göngutúra á vinsælum göngustöðum varðar segir hann best að halda sig í eins mikilli fjarlægð frá öðrum og hægt er, passa sig á sameiginlegum snertiflötum eins og bekkjum og borðum. „Veiran getur lifað talsverðan tíma úti,“ greinir hann frá.

„Þetta eru tæpir tveir metrar,
„Þetta eru tæpir tveir metrar," sagði Víðir Reynisson á 94. upplýsingafundinum í síðasta mánuði. Ljósmynd/Lögreglan

Flestir ætla að vera heima

Einhverjar fregnir hafa borist af fólki sem ætlar í sumarbústaði. Víðir biður fólk um að halda kyrru fyrir og vera sem minnst á ferðinni en „við skiljum að þessi tími er oft tíminn til að ganga frá bústaðnum fyrir veturinn“.  „Almennt heyrist mér að fólk ætli að vera rólegt heima, fara í stuttar gönguferðir  í litlum eða engum hópum og lesa og spila. Mér finnst það vera stemningin,“ segir hann og bætir við að fólk hafi verið jákvætt og hvetjandi á samfélagsmiðlum og talað um mikilvægi þess að takast á við veiruna sem eitt lið.

Rúmenar á æfingu í Kópavogi í gær.
Rúmenar á æfingu í Kópavogi í gær. Ljósmynd/Rúmenska knattspyrnusambandið

Í einangrun þar til næstu skref verða ákveðin

Fararstjóri rúmenska landsliðsins í fótbolta hefur greinst með kórónuveiruna og er hann í einangrun, auk þess sem fleiri úr fararstjórninni eru í sóttkví. Þeir sem eru í sóttkví munu fara af landi brott en þó ekki með liðinu sem tapaði fyrir Íslandi í gærkvöldi. Sá sem er í einangrun verður hér áfram á meðan rúmenska knattspyrnusambandið skoðar hvað verður hægt að gera í sambandi við hann. Ætli hann að fljúga þarf hann að fara með sjúkraflugi. Að sögn Víðis var fararstjórnin ekki í beinum tengslum við leikmenn landsliðsins.

Þrír leikmenn ítalska U-21 árs landsliðsins greindust með veiruna og var leiknum við Ísland sem átti að vera í dag frestað. Ítalirnir verða áfram hér á landi í einangrun þangað til ítalska knattspyrnusambandið ákveður næstu skref. Gera þarf sérstakar ráðstafanir ef þeir fara heim með sjúkraflugi. Hinir leikmennirnir sem eru í sóttkví fara af landi brott á næstunni, segir Víðir.

Spurður út í sigur Íslands á Rúmenum í gær segir hann skilaboðin hafi verið góð frá landsliðinu. „Það er léttara yfir mörgum hverjum í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert