Segir Ragnar hrokafullan „grilllækni“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur svarað ummælum Ragnars Freys Ingvarssonar, umsjónarmanns Covid-deildar á Landspítalanum, sem gagnrýndi ummæli Brynjars um viðbrögð við kórónuveirunni.

Hann talar á Facebook um Ragnar sem „grilllækninn“ sem hafi tekið fram grillspaðann í gær til að „grilla heimsku þingmannadrusluna“. Ragnar hafi náð „slíkum hæðum í hroka að þingmaðurinn, sem kallar nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum, bliknar í samanburðinum.“

Brynjar segist hafa fengið yfir sig holskefluna, eftir að hafa talað um að hann væri mótfallinn viðamiklum aðgerðum til að hafa hemil á kórónuveirunni, ekki síst frá fólki sem telji mikilvægt fyrir lýðræðið að tala saman og skiptast á skoðunum. Bætir hann við að margir af helstu sérfræðingum í smitsjúkdómum og lýðheilsufræðum við bestu háskóla í heimi hafi sterkari skoðanir í þessa áttina en hann.

„Grilllæknirinn hefur áhyggjur að því að ég skilji ekki tölur. Hann byrjar á því að fullyrða að "fyrir hverja 1000 smitaða fáum við 32 innlagnir, 7 á gjörgæslu og 3 deyja, að minnsta kosti. Síðan segir talnaglöggi grillarinn í næstu setningu " að í þessari bylgju hafi um 1000 smitast, 24 eru á sjúkrahúsi, 4 á gjörgæslu og sem betur fer enginn dáið". Þingmaðurinn er ekki svo ótalnaglöggur að sjá ekki ósamræmi í þessum tölum grillarans,“ skrifar Brynjar.

Hann leggur í lokin til að stjórnvöld flytji inn sérfræðinga frá Norður-Kóreu til aðstoðar. „Þeir vita örugglega hvernig á að loka löndum og allri starfsemi, svo vel sé. Mér skilst að dánartíðni þar sé mjög lítil og svo hafi verið lengi og löngu fyrir tíma Covid.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert