Samtals greindust 60 innanlandssmit kórónuveiru á Íslandi í gær. 36 þeirra greindust hjá einstaklingum sem voru í sóttkví og þrjú smit greindust við landamærin.
Svona fá smit hafa ekki greinst í viku, þegar 59 greindust 4. október. Þessir tveir dagar eiga það sammerkt að vera sunnudagar og sýnin eru því þeim mun færri. Í dag voru þau til að mynda 2.152, en 4.064 í gær, þegar 87 greindust.
„Tölurnar á sunnudegi og mánudegi eru oft lægri af því að það er minna í sýnatöku,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is. Hann segir að það sé of snemmt að lesa í þessar tölur að mikil niðursveifla sé í gangi. Áhrifa aðgerðanna sem gripið hafi verið til muni ekki fara að gæta fyrr en eftir viku eða tíu daga.
Jóhann segir þá að smitrakningin gangi nú betur en í upphafi þriðju bylgju, þegar gríðarlegt álag var á smitrakningarteyminu. „Frá því í sumar er búið að sjálfvirknivæða ferlið. Áður var þetta hringt út í löngum símtölum en nú er þetta þannig að þegar nafn viðkomandi fer inn í kerfið sendist út sms, tölvupóstur og skilaboð inn á Heilsuveru,“ segir Jóhann.
„Það varð mikið álag nú í upphafi þessa faraldurs sem tók tíma að vinna af. En þau eru búin að ná í skottið á sér í dag,“ segir hann.
Hertar aðgerðir tóku gildi fyrir viku á öllu landinu og enn hertari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudaginn. Allt á þetta að vera fram til 19. október og þá verður tekin ákvörðun um framhaldið. Í fyrstu bylgju faraldursins voru sambærilegar aðgerðir framlengdar eftir að gildistími þeirra rann út.