Nú er langt liðið á haustið og létt gola dugar til að laufin falli af trjánum. Á meðan veðrið er ennþá til friðs er fátt betra fyrir fólk að gera í kófinu en að fá sér göngutúr og njóta haustlitanna á meðan þeirra nýtur enn við.
Í myndskeiðinu má sjá haustið skreyta Elliðaárdal og Þingvelli og enski tónlistarmaðurinn Nick Drake sér um tónlistina.
Þú gætir raunar gert margt vitlausara, kæri lesandi, en að nýta haustlitagöngutúrinn í að hlusta á hlaðvarpsþætti Snorra Helgasonar um Drake sem má finna hér.
Haustið og ljúfsár tónlist Drakes, sem lést einungis 26 ára gamall en skildi eftir sig þrjár ótrúlegar plötur, fer einstaklega vel saman og okkur veitir víst ekki af því að dreifa huganum frá veirum og veseni þessa dagana.