Þorgerður gerist kannski bara félagsmaður

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar mætti í golf í Hveragerði …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar mætti í golf í Hveragerði í gær, þar sem aðeins félagsmenn máttu spila. Hún er ekki félagsmaður, enn sem komið er. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Lyng Hjaltason, rekstrarstjóri Golfklúbbsins í Hveragerði, segist hafa haft eftirlit með því í gær hver mætti á golfvöllinn til að spila, en að hann hafi brugðið sér frá, og þá hafi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tekið sinn hring. Hún var ekki með rástíma en það var lítið um að vera á vellinum.

„Undir öllum eðlilegum kringumstæðum átti hún náttúrlega ekki að koma, eins og var búið að vera að biðja um. En það er undir henni komið hvað hún gerir. Við erum ekki lögreglur þarna að stoppa fólk og henda því í burtu, en við reynum að halda uppi eftirliti þannig að það sé ekki fólk að koma þarna úr höfuðborginni að spila,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Ekki ein um að spila golf utan höfuðborgarsvæðisins

Einar segir að tilfelli Þorgerðar sé eina dæmið, svo hann viti til, um að fólk úr höfuðborginni hafi komið á völlinn þrátt fyrir tilmælin. Það hefur þó borið á þessu annars staðar á landsbyggðinni, svo sem á Akranesi, þar sem mikill fjöldi kylfinga frá Reykjavík spilaði á golfvellinum um helgina.

„Auðvitað er þetta leiðinlegt fyrir hana,“ segir Einar. „Þetta er náttúrlega manneskja sem kemur mikið til okkar yfir sumartímann af því að hún er með bústað hérna rétt hjá. Þetta kannski gerir það að verkum að hún gerist félagsmaður hjá okkur, en hún er náttúrlega bara góður viðskiptavinur.“

Honum finnst ekki úr vegi að Þorgerður taki sig nú til og skrái sig í klúbbinn: „Það er eflaust bara hennar næsta skref.“

Ljósmynd/Golfklúbbur Hveragerðis

Deilt um opnun golfvalla

Nokkuð hefur verið tekist á um opnun golfvalla undanfarið. Golfsamband Íslands, þar sem Þorgerður Katrín situr í stjórn, sendi frá sér langa yfirlýsingu fyrr í dag þar sem samskipti þess við almannavarnayfirvöld eru reifuð.

Golfsambandið hafði fengið munnlega staðfestingu á því frá Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni að það ætti að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu. Það hafi síðan ekki komið eins afdráttarlaust fram í öðrum tilmælum frá yfirvöldum, þannig að deila skapaðist um það hvort vellir mættu hafa opið.

Nú hafa þó verið tekin af öll tvímæli um málið. Golfvellir í Reykjavík verða áfram lokaðir og kylfingar í Reykjavík eiga að halda sig þar og ferðast ekki út fyrir bæjarmörkin til að komast í golf. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert