Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, birti í gær grein á heimasíðu sinni sem birst hafði í Morgunblaðinu daginn áður. Á heimasíðunni var hún þó ekki alls kostar með sama sniði og í blaðinu, þar sem við hafði bæst myndarlegt safn af skjáskotum sem tengdust efni greinarinnar.
Skjáskotin voru af tístum og samfélagsmiðlafærslum fólks sem áður hefði að líkindum flokkast sem „góða fólkið“ en Sigmundur hefur nú boðað að verði kallað „ybbar“, í ljósi þess að uppáhaldsiðja hópsins er að „ybba sig, ybba gogg og útskýra fyrir öllum öðrum hvers vegna þeir hafi rangt fyrir sér“, eins og Sigmundur skrifar í greininni.
Það kennir ýmissa grasa í skjáskotunum. Tístin eru ýmist viðbrögð við grein Sigmundar um ybbana eða eldri færslur þar sem fjallað er um mál sem má skilja sem svo að séu ybbunum hugleikin.
Sigmundur tilfærði til dæmis þessi tvö tíst, en Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður er einmitt langalgengasta viðfang skjáskotanna.
Birting skjáskotasafnsins vakti nokkur viðbrögð hjá ybbunum á Twitter eins og vænta mátti. Af einu tístinu að dæma virðist hið sama hafa gilt í þessu og gildir um árlegt áramótaskaup, að það eina sem er verra en að birtast í skaupinu er að birtast alls ekki.
Sigmundur lýsir ybbunum nánar í greininni:
„Ybbarnir liggja því yfir Twitter og öðrum safnaðarritum til að fylgjast með, læra nýjustu reglurnar, tungutakið og frasana og sanna sig. Þá má ekki missa af nokkru tækifæri til að sýna dyggðamont. [...]
En samkeppnin er líka mikil innan ybbasamfélagsins (eins og þeir vilja væntanlega láta kalla það). Ef þú ert ekki betri en aðrir ert þú verri en aðrir. Ef þú fylgir ekki nýjasta rétttrúnaðinum ertu villutrúar. Ófáir hátt skrifaðir ybbar hafa fallið í ónáð eftir eitt skynsamlegt tíst. [...]
Hugmyndir ybbanna eru í grunninn vinstrisinnaðar. Þær eiga rætur að rekja til marxískrar menningarelítu sjöunda áratugarins, þ.e. svokallaðs póstmódernisma án áherslu á stéttabaráttu og bætt kjör verkalýðsins. Þó hefur talsverður fjöldi fólks af hægri kanti stjórnmála aðhyllst stefnuna í seinni tíð.“