Nú hægt að skrá bifhjól á netinu

Nú má skrá létt bifhjól á vef Samgöngustofu.
Nú má skrá létt bifhjól á vef Samgöngustofu. mbl.is/​Hari

Samgöngustofa hefur nú opnað fyrir skráningar léttra bifhjóla á vef sínum. Tilgangur þess er að auka yfirsýn lögreglu með notkun þess konar bifhjóla og þar með stuðla að auknu öryggi í umferðinni. Hin geysivinsælu rafmagnshlaupahjól sem víða sjást á götum Reykjavíkur falla ekki undir þann flokk bifhjóla sem nú er skráður hjá Samgöngustofu.

Eigendur vélknúinna bifhjóla, sem falla undir flokk 1 og eru framleidd fyrir 1. janúar 2020, gefst nú kostur á því að skrá bifhjól sín að lokinni skoðunar hjá viðurkenndum aðila. Það eru bifhjól á tveimur, þremur eða fjórum hjólum sem fara að hámarki á 25 kílómetra á klukkustund. Engin breyting er á skráningu samskonar hjóla sem falla undir flokk 2. Þau hjól komast upp í allt að 45 kílómetra á klukkustund og eru gjarnan kallaðar skellinöðrur.

Samgöngustofa hefur nú opnað fyrir rafræna skráningu á eldri léttum bifhjólum í flokki I (vespur keyptar fyrir 1. janúar 2020). Leiðbeiningar um skráninguna má finna hér: www.samgongustofa.is/lettbifhjol

Posted by Samgöngustofa on Mánudagur, 12. október 2020

Eykur umferðaröryggi

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir í samtali við mbl.is að þetta verði til þess að auka öryggi í umferðinni.

„Við þessa nýju skráningu þurfa hjólin í flokki 1 að hafa gengist undir skoðun þar sem séð er til þess að allur ljósa- og öryggisbúnaður er í lagi. Einnig auðveldar þetta lögreglunni að hafa eftirlit með þessum bifhjólum.“

Nýtilkomin rafmagnshlaupahjól, sem íbúar Reykjavíkur geta tekið á skammtímaleigu, falla ekki undir þann flokk bifhjóla sem nú er hægt að skrá á vef Samgöngustofu, flokk 1.

Þau eru skilgreind líkt og reiðhjól að því undanskildu að rafmagnshlaupahjólum má ekki aka úti á götu, eingöngu á göngustígum. Reiðhjólum má þó aka úti á götu, líkt og löghlýðnu reiðhjólafólki ætti að vera kunnugt um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert