Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni líst ekki vel á hugmyndina um mótefnapartí, þar sem þeir gætu komið saman sem væru búnir að fá Covid-19 en væri batnað. Áform um slíkt voru reifuð af Árna Steini Viggóssyni í viðtali á mbl.is í gær, sem miðað við viðbrögð þríeykisins kann að vilja endurskoða málið.
„Ef við erum að hugsa bara um veiruna kannski gengi það upp,“ sagði Þórólfur, þegar hann var spurður út í málið á upplýsingafundi almannavarna í dag.
„En ég held að myndi skapa ákveðið fordæmi sem ég er ekki endilega viss um að allir myndu virða, þ.e. hvort þeir væru með mótefni eða ekki mótefni. Ég held að þetta myndi kannski gefa tilefni til að fólk færi að reyna að fá þessa veiru svo að það gæti farið í partí og það gæti farið mjög illa,“ sagði hann.
„Þannig að ég held að menn þurfi aðeins að líta lengra inn í framtíðina með svona hugmyndir en sem unglingur myndi ég skilja þessa hugmynd vel.“
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði hugmyndina um mótefnapartí vekja stórar spurningar. „Þetta er afskaplega áhugaverð spurning siðfræðilega séð: Hvernig samfélagi við viljum vera í, hvort það eigi að leyfa eitthvað meira fyrir einhverja sem hafa fengið veiruna?“ sagði hann.
„Við erum í landi þar sem gilda sömu lög fyrir alla og sömu reglur fyrir alla, þannig að það mun ekkert vera breyting varðandi það hve margir mega koma saman hvort sem þeir eru með mótefni eða ekki.“
Alma Möller landlæknir benti á að þeir sem hafi fengið Covid-19, geti, þó að þeir séu með mótefni, verið veikir í lungum og hægt sé að fá aðrar veirur og bakteríur þangað.
„Síðan getur fólk auðvitað verið með veiruna á höndunum og borið hana á milli, þó að það sjálft sé ónæmt. Þannig að við hvetjum þá sem eru búnir að fá Covid-19 að fara varlega hvað varðar sóttvarnir,“ sagði Alma.