Efling - stéttarfélag hefur blásið til herferðar til að þrýsta á um að launaþjófnaður atvinnurekenda gagnvart launafólki verði gerður refsiverður á Íslandi.
Í tilkynningu frá stéttarfélaginu segir að launaþjófnaður sé sívaxandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði sem komi harðast niður á láglaunafólki.
„Heildarkröfur Eflingar vegna vangoldinna launa Eflingarfélaga námu ríflega milljarði á síðustu fimm árum. Launaþjófnaður er mun viðameira vandamál heldur en þessar tölur gefa til kynna enda fleiri stéttarfélög sem taka við erindum félagsmanna um vangoldin laun. Auk þess leitar ekki nándar nærri allt launafólk réttar síns gagnvart atvinnurekendum af ótta við að missa vinnuna,“ kemur fram í tilkynningunni.
Þar segir enn fremur að sífellt fleira launafólk leiti eftir aðstoð stéttarfélaga við að krefja atvinnurekendur um vangoldin laun. Kröfum Kjaramálasviðs Eflingar fyrir hönd félagsmanna hefur fjölgað úr 200 á ári upp í 700 á síðustu fimm árum. Að sama skapi hefur heildarupphæð krafna farið stighækkandi og nam 345 milljónum króna á síðasta ári.
Kröfur stéttarfélagsins fyrir hönd einstakra félagsmanna nema oftast á bilinu 380 til 490 þúsund kr. og langan tíma getur tekið að innheimta hverja kröfu fyrir sig. Á meðan situr launamaðurinn uppi með skaðann af því að geta ekki séð sér fyrir nauðþurftum og staðið skil á skuldbindingum eins og leigu.
„Engin sekt eða bótaupphæð bætist ofan á launakröfur og því hafa atvinnurekendur engan hvata til að leiðrétta vangoldin laun hjá öðrum en þeim sem leita réttar síns. Eina leiðin til að setja þrýsting í þessum tilvikum er að fara í mál gagnvart atvinnurekanda fyrir dómstólum og nema bætur þá oftast aðeins málskostnaði og dráttarvöxtum. Efling krefst þess að refsing vegna launaþjófnaðar nemi minnst 100% af launakröfu vegna stolinna launa. Lægri sekt styður aðeins við ábata atvinnurekenda af þjófnaði úr vösum verkafólks,“ segir í tilkynningu Eflingar.