Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn reiknar með því að fjöldi þeirra sem greindust með kórónuveirusmit í gær sé svipaður og greindist fyrir helgi, eða í kringum 90 manns.
Þessu greindi hann frá í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Fimmtíu greindust með veiruna á sunnudag og sextíu á laugardag en þá voru mun færri skimaðir.
„Við erum ekki komin með staðfestar tölur gærdagsins en hlutfallið um helgina og það sem við sáum fram eftir degi í gær sýnir að við erum bara á svipuðum stað eins og við höfum verið. Við erum ekki farin að sjá toppinn á þessu ennþá,“ sagði Víðir á Bylgjunni.
Hann vonast eftir lægri tölum á miðvikudag, fimmtudag og föstudag ef þróun á fjölda smitaðra verður svipuð og í faraldrinum í vor.