Allt öðruvísi faraldur en í vetur

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki tilefni til að slaka á þeim aðgerðum sem nú eru í gildi að svo stöddu. Hann segir allar líkur á því að sú bylgja faraldursins sem nú er í gangi verði stærri en þegar kórónuveiran kom fyrst til landsins síðasta vetur. 

88 innanlandssmit veirunnar greindust í gær og var um helmingur sýktra í sóttkví við greiningu. 

Þórólfur segir að vanalega taki það um eina til tvær vikur að sjá aðgerðir bera árangur. Þær aðgerðir sem nú eru í gildi, það er 20 manna samkomutakmarkanir, tveggja metra regla, grímuskylda við ákveðnar aðstæður og fleira, tóku gildi 5. október og gilda til þess 19.  

„Það mun taka allavega eina til tvær vikur að sjá árangur af þeim aðgerðum sem gripið var til í síðustu viku. Við erum bara að sjá nokkuð stöðugt ástand á þessum faraldri núna, en það mun örugglega taka einhvern tíma að ná honum niður. Þetta mun örugglega ganga töluvert hægar núna heldur en það gerði síðastliðinn vetur. Ég er ekki búinn að skila minnisblaði til ráðherra en ég tel ekki að það sé neitt í spilunum sem gefi okkur tilefni til að slaka á þeim aðgerðum sem eru í gangi,“ segir Þórólfur. 

Veiran dreift sér víða

Þórólfur segir að í þessum faraldri hefur veiran dreift sér víðar en raunin var í vetur. 

„Þessi faraldur núna er allt öðruvísi en hann var í vetur. Í vetur kom hann í skyndingu, kom mjög hratt inn í landið og það tókst að ná utan um hann tiltölulega fljótt, meðal annars með því að setja fólk sem var að koma til landsins í sóttkví. Það náðist að stoppa þetta af fyrr í ferlinu. Núna er veiran hins vegar búin að hreiðra um sig hér og þar og þess vegna er erfiðara að ná utan um hana. Svo kann að vera að fólk sé ekki alveg eins móttækilegt og tilbúið í þessar aðgerðir, þó að flestir fari eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið,“ segir Þórólfur. 

Uppsafnaður fjöldi smita í þessum faraldri nálgast óðum heildarfjölda smita í fyrstu bylgju faraldursins. Þórólfur segir allar líkur á að þessi bylgja verði sú stærsta hingað til. 

„Það er nokkuð ljóst að þessi bylgja verði stærri en bylgjan í vetur. Bæði getur hún náð hærri toppi og svo mun hún örugglega taka lengri tíma að ganga yfir,“ segir Þórólfur. 

Spurður hvort mikið sé um hópsýkingar nú þegar veiran hefur dreift sér svo víða segir Þórólfur: 

„Þetta tengist mest fjölskylduböndum og vinahópum og félagshópum þar sem fólk er að hittast. Svo eru alltaf einhverjir sem við vitum ekki hvernig hafa smitast. En stærstu hóparnir tengjast enn þá þessum pöbbum og líkamsræktarstöðvum sem við höfum verið að tala um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert