Guðmundur Franklín Jónsson, sem bauð sig fram til embættis forseta Íslands í sumar, hefur ákveðið að bjóða sig fram til Alþingis undir merkjum Frjálslynda lýðræðisflokksins. Hans helsta baráttumál verður að færa auðlindirnar í hendur þjóðarinnar og reiknar hann með því að fá að minnsta kosti 10% fylgi í næstu kosningum.
„Ég vil að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar. Að þeim verði ekki komið fyrir sem einkaeign stórfyrirtækja,“ segir Guðmundur.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn verður formlega stofnaður í lok janúar. Um 200 manna hópur er að búa til stefnuskrá flokksins og segir Guðmundur hana verða mjög ítarlega og snerta öll mál. Auk auðlindamála ætlar hann helst að berjast fyrir beinu lýðræði. „Með þessu tvennu er hægt að berjast betur gegn spillingu,“ segir hann, en Vísir greindi fyrst frá málinu fyrr í dag.
Guðmundur segir flokkinn vera þverpólitískt afl þar sem allir geti notið sín. Ísland sé lítið land sem hafi ekki efni á því að skipta sér í fylkingar, til vinstri eða hægri, sérstaklega vegna ástandsins í kringum kórónuveiruna. „Ég er með ýmsar lausnir og sniðugheit við efnahagsvandanum, til dæmis fyrir ferðaþjónustuna. Mér líst ekkert á það sem stjórnvöld hafa verið að bjóða upp á,“ segir hann og hrósar Samfylkingunni sem vill lækka tryggingagjaldið.
Spurður hvers vegna hann ákvað að stofna nýjan flokk í stað þess að ganga til liðs við annan segir hann að aðrir flokkar hafi haft samband við hann, án þess að hann vilji segja hverjir það voru. „Mér finnst það svo augljóst sem þarf að laga. Það hefur enginn áhuga á að taka á hlutunum eins og þarf að gera,“ nefnir hann og á þar við auðlindamálin.
Ertu vongóður um gott fylgi?
„Ég fékk meira en Framsóknarflokkurinn í kosningunum,“ segir hann og á við forsetakosningarnar þar sem hann hlaut tæp þrettán þúsund atkvæði, eða 7,8% á móti 92,2% atkvæðum Guðna Th. Jóhannessonar. „Með mér verður rosalega flott fólk í framboði og ég reikna með að þau fái einhver atkvæði líka. Ég geri ráð fyrir að fá alla vega 10%,“ greinir hann frá og bætir við að það fyrsta sem hann myndi gera ef hann kemst til valda væri að afnema ríkisstyrki til stjórnmálaflokka. Það sé á móti öllu siðferði og „út í hött“ að vera með ríkisrekna pólitík.