Margrét Friðriksdóttir er að koma á laggirnar nýjum fjölmiðli sem hefur göngu sína 1. desember. Margrét segir að þetta verði „miðill sem þorir“, til að mynda í útlendingamálum, trúmálum og hinseginmálum.
Sjálf hefur hún ekki verið þekkt fyrir að liggja á skoðunum sínum í innflytjendamálum og hefur meðal annars verið í forsvari fyrir Pegida-hreyfinguna á Íslandi, sem eru evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda. Hún hefur einnig gefið kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og löngum verið virk í athugasemdum félagsmiðla, oft með harla umdeildar skoðanir.
Margrét segir að miðillinn, sem mun bera þann látlausa titil frettin.is, sé ekki flokksmiðill í eðli sínu, þó að ljóst sé að þetta verði „enginn kommamiðill“. Að baki miðlinum standa fjársterkir aðilar sem Margrét segir að tengist bæði Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Þegar hefur 400 fermetra aðstaða verið leigð undir starfsemina á efstu hæð í Nóatúni 17, þar sem verslunin Nóatún var áður á neðstu hæð.
„Stefnan er að vera með miðil sem er akkúrat andstæðan við það sem við stofnendur teljum að viðgangist því miður í of miklum mæli í öðrum miðlum núna. Mér þykir allir miðlar sýktir af pólitískum rétttrúnaði,“ segir Margrét.
„Við finnum í samfélaginu að fólk er orðið þreytt á þöggun og þeirri orðræðu sem er í gangi hjá vissum hópi. Það er skýrt til dæmis hjá Gísla Marteini, þar sem er engu líkara en að það búi bara 300 manns í þessu samfélagi,“ segir Margrét.
Á meðal efnisflokka þar sem Margrét telur að ríki skoðanakúgun eru málefni hælisleitenda, trúmál og hinseginmál. Þá þurfi að skera upp herör gegn öfgafemínisma og tekur Margrét þó fram að hún sé jafnréttissinni sjálf.
„Það er hræðsla í samfélaginu við að tjá sig um viss mál. Fólk er hrætt við atvinnumissi og þorir ekki að tjá sig, sem er mjög alvarlegt í lýðræðissamfélagi,“ segir Margrét. Auglýst var eftir fjórum blaðamönnum til að koma til starfa fyrir miðilinn á Facebook í dag.