Spurt um dauða miðbæjarins á ný

Yfirleitt er tómlegt um að litast í miðbænum þessa dagana.
Yfirleitt er tómlegt um að litast í miðbænum þessa dagana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru kannski svona tíu tólf ár síðan að þetta var svona síðast. Kannski ekki eins slæmt og það er núna. Þar áður kom svipuð umræða upp í tengslum við verslunarmiðstöðvarnar tvær Kringluna og Smáralind og fólk spurði hvort miðbærinn væri dauður,“ segir Ari Skúlason hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans í samtali við mbl.is.

Á dögunum taldist mér til að 76 rými séu lokuð á Laugaveginum. Sum tímabundið en flest um óákveðinn tíma eða 39,6% þar sem 116 virðast í rekstri þessa dag­ana. Á Skóla­vörðustígn­um virðast 19 versl­un­ar­rými vera lokuð en 40 eru í rekstri og á Hverf­is­götu tald­ist mér til að lokuð rými væru 28. Hliðargöt­ur eru auðvitað marg­ar og þar er svipað upp á ten­ingn­um án þess að lagt hafi verið í taln­ingu þar. Ég bar stöðuna undir Ara.

Spurningunni um dauða miðbæjarins, segir Ari að hafi verið svarað á sínum tíma af fólki úti í heimi þegar það ákvað að ferðalag til Íslands væri góð hugmynd. Þegar ferðaiðnaðurinn tók flugið varð rekstur á svæðinu vænlegur að nýju. Hinsvegar hafi hann alltaf verið háður því að ferðamenn myndu halda áfram að streyma um göturnar. „Við Íslendingar getum náttúrulega sótt einhverja þjónustu í miðbæinn en reksturinn sem er þarna getur aldrei borið sig nema að ferðafólk sé í jafn miklum mæli og hefur verið á undanförnum árum,“ segir Ari.

Eitthvað gefur eftir

Á meðan eftirspurnin eftir húsnæði í miðbænum hefur verið mikil hefur húsnæðisverðið hækkað í samræmi við það. Fasteignagjöldin sem eigendur hafa þurft að standa straum af hafa því hækkað talsvert í samræmi við þetta á undanförnum árum. Nú þegar veruleg uppbygging á sér stað í miðbænum, við Hafnartorg og á fjölmörgum reitum í uppbyggingu, á Ari erfitt með sjá að verðmyndunin verði með sama hætti. „Ef ástandið núna varir eitthvað áfram þá get ég ekki séð annað en að sú hlið verði að gefa eftir. Það verði erfiðara að selja og erfiðara að leigja á þessu svæði. Þannig að verðin fari að einhverju leyti niður. Það er ekkert óhugsandi í stöðunni eins og hún er.“ 

Sá rekstur sem hefur þrifist hvað best á Laugaveginum hefur ekki bara þurft að takast á við afleiðingar af faraldri kórónuveirunnar. Blikur voru komnar á loft þegar flugfélagið WOW Air varð gjaldþrota og hökt kom í flæði ferðafólks til landsins og það setti strik í reikninginn hjá mörgum verslunum og veitingastöðum.

Einhver rekstur hefur færst af Laugaveginum og niður á Hafnarbakka á síðustu misserum þar sem meiri íburður er í byggingum og Ari segir ekki útilokað að það svæði taki mögulega fyrr við sér þegar faraldur kórónuveirunnar hættir að hafa jafn mikil áhrif á heimsbyggðina og hann gerir nú. Það gæti orðið um mitt næsta ár ef allt gengur vel, og það er býsna stórt ef. 

Bílar eða ekki? 

Undanfarið hefur mikið verið deilt um hvaða áhrif umferð bíla hefur á arðsemi verslana á svæðinu. Ari hefur ekki mikla trú á að það hafi nokkuð að segja í stóru myndinni. „Þetta finnst mér býsna augljóst. Mest allur rekstur þarna byggir á gangandi ferðamönnum á daginn og gangandi umferð á kvöldin hvort eð er. Þar sem fólk er á pöbbarölti á kvöldin. Hvort það eru bílar þarna eða ekki finnst mér skipta afskaplega litlu máli. Í góðu árferði þegar við erum með tvær milljónir ferðamanna á ári þá gengur þetta allt mjög vel upp. Þá er alltaf fullt af fólki þarna,“ segir Ari í samtali við mbl.is. 

Þá er líklega lítið í stöðunni annað en að bíða eftir svari við spurningunni sígildu. Hvaðan sem það kemur í þetta skiptið.

Bílar eða ekki? Ari segir umferð bíla hafa lítil jákvæð …
Bílar eða ekki? Ari segir umferð bíla hafa lítil jákvæð áhrif á þann rekstur sem best þrífst á Laugavegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert