Allir nemendur í Réttarholtsskóla og hluti kennara eru komnir í úrvinnslusóttkví eftir að kórónuveirusmit kom upp í skólanum í dag. Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Að sögn Jóns Péturs var ákvörðunin um að allir nemendur færu í úrvinnslusóttkví tekin að undirlagi skólayfirvalda til að koma í veg fyrir að fleiri smitist af veirunni meðan smitrakningarteymi almannavarna rekur smitleiðir.
Á Jón Pétur von á því að flestir nemendur, sem ekki voru í samskiptum við hinn smitaða, verði lausir úr úrvinnslusóttkví á mánudag og skólahald geti farið fram með að mestu með eðlilegum hætti — þ.e. ef fyrirkomulag síðustu mánaða má kalla eðlilegt.
Um 400 nemendur á unglingastigi stunda nám í Réttarholtsskóla. Skólinn hefur gengið lengra en flestir skólar í sóttvörnum og hefur meðal annars verið mælt með grímunotkun nemenda síðastliðna viku. „Við hvöttum foreldra til að senda nemendur með grímur,“ segir Jón Pétur. Stór hluti nemenda sé því með grímur í kennslustundum, sem og kennarar. Er hann á því að kennarar og nemendur í grunnskólum ættu almennt að bera grímur.
Sem fyrr segir hefur smitrakningarteymi almannavarna ekki lokið störfum og því óljóst hve margir verða sendir í lengra sóttkví með tilheyrandi sýnatöku. „Þetta er ákveðið prófmál á það hvernig rakningin virkar,“ segir Jón Pétur. „Er hægt að koma í veg fyrir sóttkví með tilheyrandi röskun á skólastarfi ef hugað er að sóttvörnum, vel loftræst og kennarar eru með grímu?“