Frumvarp um lækkun kosningaaldurs í 16 ár hefur verið lagt fram á Alþingi. Andrés Ingi Jónsson er fyrsti flutningsmaður málsins, en auk hans flytja málið tíu þingmenn úr Viðreisn, Pírötum, Samfylkingu og þingmaður utan flokka.
Í tilkynningu frá Andrési kemur fram að málið hafi verið til umræðu á vettvangi Alþingis sl. 13 ár, frá því að Hlynur Hallsson og Kolbrún Halldórsdóttir lögðu fram tillögu þess efnis og síðan hafa frumvörp sem miða að lækkun kosningaaldurs verið lögð fram í ólíkum myndum en ekki náð fram að ganga.
Þetta skiptið er lagt til að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá, sem hefði áhrif á kosningaaldur í öllum kosningum, en síðast þegar sambærilegt mál var lagt fram snéri það eingöngu að sveitarstjórnarkosningum, segir í tilkynningunni frá Andrési.
Frumvarpið er hugsað til að styrkja lýðræðið með því að bregðast við aukinni kröfu ungs fólks um að hafa tækifæri til að taka virkan þátt í mótun samfélagsins. Rödd ungu kynslóðarinnar er sjálfsagður og ómissandi þáttur í því að bæta lífið í landinu, og með lækkun kosningaaldurs getur stærri hópur ungs fólks haft bein áhrif gegnum kosningar. Þetta myndi jafnframt auðga stjórnmálin með nýjum hugmyndum um leið og þjóðin er að eldast.