Hildur Ýr Ísberg, íslenskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð, segir álagið mjög mikið og óvissuna algjöra hjá framhaldsskólakennurum landsins, sem kenna í gegnum fjarfundabúnað um þessar mundir. Hún ræddi stöðuna við mbl.is.
Að sögn Hildar er ekki aðeins til þess ætlast að kennarar kenni, heldur líka að þeir séu í fjölbreyttu hlutverki námsráðgjafa, sálfræðinga, brottfallssérfræðinga eða meðferðaraðila, því fyrir alla muni skuli koma í veg fyrir brottfall nemenda í viðkvæmri stöðu á erfiðum tímum.
„En Lilja, ég er með 130 nemendur. Ég get ekki verið þeim öllum þetta allt. Það er ekki hægt. Og álagið við að reyna er að fara með okkur,“ skrifar Hildur í opnu bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra, sem má lesa hér.
Hildur segir í samtali við mbl.is að nemendur tengist hver öðrum mun verr í þessu ástandi en undir venjulegum kringumstæðum. „Við höfum líka kynnst nemendum miklu minna, rétt eins og þau hafa kynnst minna innbyrðis. Meira að segja þegar við vorum inni í skólanum mátti ekki vera hópavinna og hópar máttu ekki blandast,“ segir hún.
„Nemendur mættu bara og sátu tímana. Þetta setur gríðarlegar skorður á okkur í kennslu og á nemendur í félagslífi og ég held að þetta muni hafa víðtækar afleiðingar fyrir nemendur,“ segir Hildur.
Í samtali við mbl.is lýsir Hildur því að viðhorfið frá því að veiran knúði dyra hafi verið á þá leið að nú skyldi þraukað, tímabundið, en síðan kæmust mál aftur í fyrra horf. Tíminn hefur þó leitt í ljós að framvindan ætlar ekki að verða með þessum hætti, heldur verður þetta ástand að sögn Hildar viðvarandi í fjölbreyttum myndum þessa önn, þá næstu og líklega þá þarnæstu.
Þetta kalli á að tekist verði heildrænt á við vandann með nýjum lausnum fyrir allt kerfið í stað þess að hjakka í sama fari og láta eins og Covid hafi ekki komið til.Slíkar lausnir gætu meðal annars hugsanlega falið í sér að minnka álag á bæði nemendur og kennara einfaldlega með því að gefa fólki kost á að taka færri áfanga eða skólum á að ráða fleira starfsfólk.
„Það kann að vera að ég hafi rangt fyrir mér með að þessi vinna sé ekki komin af stað, en ég hef ekki orðið vör við að hún sé í gangi af hendi stjórnvalda. Og ef hún er það ekki, hver er ástæðan fyrir því? Þetta er þegar önn tvö af þessu ástandi,“ segir Hildur.
Hér má lesa bréf Hildar í heild: