Bókabúð Máls og menningar hefur neyðst til að hætta rekstri sínum alfarið vegna götulokana segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, annar eigenda búðarinnar.
„Sama dag og Laugavegur varð göngugata hrundi salan,“ segir Arndís í samtali við mbl.is.
Arndís hefur rekið Mál og menningu, ásamt konu sinni Báru Kristinsdóttur, í sjö ár, en saga bókabúðarinnar spannar tæp 60 ár. Búðinni var lokað tímabundið 28. maí en stefnt var á að opna hana aftur í nóvember. Ekkert verður úr því. „Við treystum okkur ekki úr Covid og inn í lokaðan Laugaveg,“ segir Arndís.
„Það gekk rosalega vel alveg þangað til 2017,“ segir hún, en eftir það hafi bæði götulokanir og -framkvæmdir sett strik í reikninginn, og ekki bara á Laugavegi. „Svo lokaði Hverfisgatan, hálf Lækjargatan, Snorrabraut var lokuð, og svo allar hliðargötur.“
Hún segir söluna hafa lækkað um allt að 30% á síðustu þremur árum. „Við kaupmenn hérna við Laugaveginn höfum svo verið að undirbúa okkur fyrir að ná okkur loksins á strik, og þá kom Covid sem enginn réði við.“
Arndís segir kórónuveirufaraldurinn þó ekki meginástæðu þess að reksturinn gekk ekki. „Ástæðan fyrir því að Mál og menning gekk ekki í sumar var bara lokun gatna. Við hefðum haft af í sumar, ég er alveg með það á hreinu að við hefðum haft það af, með styttri opnunartíma og aðeins færra starfsfólki en við hefðum náð þessu.“
Í rými bókabúðarinnar mun svo opna skemmtistaður með sama nafni; Bókabúð Máls og menningar. Þó Arndís sé ekki mótfallin staðnum á neinn hátt finnst henni rýmið mega vera nýtt í eitthvað annað. „Þetta er sorglegt, því það er alveg hægt að setja upp svona bar og skemmtistað annars staðar en akkúrat í þessu húsnæði.“