Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir almannavarnadeild brýna fyrir íbúum höfuðborgarsvæðisins að ferðast ekki út á land næstu tvær til þrjár vikurnar.
„Fram undan eru vetrarfríin í grunnskólunum og þess vegna þufum við enn frekar að minna á þetta. Þetta er ekki ósvipað því sem við þurftum að upplifa um páskana. Vetrarfríunum fylgja oft ferðalög,“ segir Jóhann.
Tekur því almannavarnadeild undir það sem fram kemur í minnisblaði sóttvarnarlæknis um að íbúar höfuðborgarsvæðisins séu hvattir til að halda sig innan svæðisins næstu tvær til þrjár vikur.
Að sögn Jóhanns virðist almenningur hafa haldið sig heima síðan tilmæli þess efnis voru gefin út, að því er umferðartölur Vegagerðarinnar hafa sýnt fram á.