Ótímabært að byggja flugvöll

Reykjavíkurflugvöllur verður áfram notaður en Sandskeið, þar sem myndin er …
Reykjavíkurflugvöllur verður áfram notaður en Sandskeið, þar sem myndin er tekin, hefur einnig nýst. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Það er augljóslega ótímabært og andstætt markmiðum samkomulags ríkis og borgar að fjárfesta í flutningi kennslu- og einkaflugs frá Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á meðan rannsóknir standa yfir á mögulegu flugvallarstæði í Hvassahrauni.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra í bréfi til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, sem dagsett er 16. september sl. Er ráðherra hér að svara bréfi sem borgarstjóri ritaði honum 8. júlí sl. þar sem hann krefst þess að ríkið efni samkomulag og finni „án tafar“ nýjan stað fyrir einka- og kennsluflug utan Reykjavíkurflugvallar.

Niðurstaða fyrir árslok 2024

Samgönguráðherra áréttar í bréfinu að það sé skýr sameiginlegur vilji ríkis og borgar með samkomulagi frá 2019 að stefna að því að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni, reynist það vænlegur kostur, þar með talið æfinga-, kennslu- og einkaflug. Stefnt sé að því að fyrir árslok 2024 liggi fyrir niðurstöður rannsókna og þá verði hægt að taka afstöðu til þess hvort byggður verði völlur þar.

Loks áréttar samgönguráðherra í bréfi sínu að samkvæmt samkomulagi ríkis og borgar frá 2019 skuldbindi borgin sig til að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur. Ekki verði farið í frekari styttingar og lokanir á flugbrautum vallarins, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka