Umhverfisráðherrar Norðurlandanna leggja til að gerður verði nýr alþjóðasamningur til að draga úr plastmengun í hafi. Þetta var rætt á alþjóðlegum rafrænum viðburði norrænu ráðherranna í dag, þar sem kynnt var hvernig megi vinna að slíkum samningi.
Á fundi sínum í Reykjavík í apríl í fyrra samþykktu ráðherrarnir að hvetja til og vinna að því að koma á fót nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið. Skýrslan sem kynnt var í dag og var unnin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar er afrakstur þeirrar vinnu, að því er segir í tilkynningu.
„Plastmengun í hafi er stórt og vaxandi vandamál á heimsvísu. Bæði er um að ræða plastrusl, sem safnast víða upp í stórum flekkjum á heimshöfunum og svo kallað örplast, litlar plastagnir sem eru meðal annars étnar af dýrum. Rætt hefur verið um samræmd viðbrögð á heimsvísu við þessari vá, m.a. á vettvangi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Norðurlöndin hafa hvatt til þess að slíkur samningur verði gerður og fengu í því ljósi sérfræðinga til að gera skýrslu um hvernig best væri að standa að gerð hans og hvaða þátta ætti að líta til,“ segir í tilkynningunni.
Í skýrslunni er lagt til að samningurinn miði að því að virkja stjórnvöld, atvinnulíf og neytendur í sameiginlegu átaki til að koma í veg fyrir plastmengun.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók þátt í kynningunni og í umræðum í kjölfarið. Hann nefndi að Ísland hefði þegar gert áætlun um hvernig sé hægt að taka á plastmengun heima fyrir, en slíkar landsáætlanir eru taldar mikilvægur þáttur í alþjóðasamningi.
„Plastmengun virðir engin landamæri. Þess vegna er þetta alþjóðlegt viðfangsefni alveg eins og flest önnur umhverfisvandamál. Og, maður tekst á við slík verkefni með alþjóðasamningum og sterkum aðgerðum heima fyrir. Verkefnið núna er að ná samstöðu um gerð nýs alþjóðlegs samnings og þessi skýrsla er gott innlegg í hvað slíkur samningur ætti að fela í sér. Þetta er því ekki spurning um hvort eða hvenær, heldur hvernig. Við megum engan tíma missa,“ sagði Guðmundur Ingi, að því er kemur fram í tilkynningunni.