Áttu fótum sínum fjör að launa niður Keili

Jón Svavar lenti heldur betur í honum kröppum. Í baksýn …
Jón Svavar lenti heldur betur í honum kröppum. Í baksýn sést farið í fjallinu þar sem steinn rúllaði niður. Ljósmynd/Aðsend

Jón Svavar Jós­efs­son og kær­asta hans Hall­dóra Björk áttu fót­um sín­um fjör að launa á fjall­inu Keili þegar jarðskjálft­inn gekk þar yfir í dag og risa­stór­ir stein­ar tóku að rúlla niður hlíðarn­ar. Fjallið er skammt frá upp­tök­um skjálft­ans.

„Það hefði getað farið mjög illa ef maður hefði fengið stein á sig. Það er al­gjör lukka að það hafi ekki gerst,“ seg­ir Jón Svavar, sem er óperu­söngv­ari og kór­stjóri Bar­tóna, meðal ann­ars.

Hann og Hall­dóra ætluðu sér að fara í létta göngu­ferð upp Keili og voru kom­in á topp­inn um hálft­völeytið í dag. Þau löbbuðu hefðbundna leið að fjall­inu, gengu svo upp á topp, tóku nokkr­ar mynd­ir og virtu fyr­ir sér út­sýnið.

„Eins og fjallið kæmi í fangið á okk­ur“

Eft­ir það löbbuðu þau niður vest­an­meg­in um þrjá­tíu metra til að setj­ast niður og fá sér kaffi. Þau héldu svo áfram för. Leiðin niður var nokkuð brött og runnu þau aðeins til eins og geng­ur og ger­ist á þessu fjalli. Þegar þau voru kom­in niður fyr­ir ákveðinn ás og úr „sleipri sand­hell­unni“ tók jörðin að skjálfa und­ir þeim. „Það var allt í einu eins og fjallið kæmi í fangið á okk­ur. Maður held­ur fyrst að maður sé að fá aðsvif,“ grein­ir hann frá og seg­ist hafa verið að snúa sér við þegar „allt í einu fannst mér ég vera að labba í sandi í lausu lofti. Það næsta sem ég vissi var að ég sat á rass­in­um ein­hvers staðar fyr­ir neðan og húf­an datt af mér og sólgler­aug­un mín,“ bæt­ir hann við. Þurfti hann að klifra upp nokkra metra til að sækja gler­aug­un sem höfðu graf­ist und­ir sand­in­um.

Halldóra Björk hjá einum steinanna.
Hall­dóra Björk hjá ein­um stein­anna. Ljós­mynd/​Aðsend

Stór­ir hnull­ung­ar ultu fram­hjá 

Það næsta sem gerðist var að hnull­ung­ar voru byrjaðir að velta fram hjá þeim, sitt hvor­um meg­in við þau, mis­stór­ir. Sum­ir voru á stærð við björg, bæt­ir hann við. „Hall­dóra kær­ast­an mín kallaði: „Hlaup­um niður.“ Þá vor­um við  akkúrat kom­in niður fyr­ir þessa hellu og þá gát­um við hlaupið, ekki stíg­inn, held­ur beint niður fjallið,“ seg­ir Jón Svavar og nefn­ir að sem bet­ur fer hafi verið lítið af stór­grýti þar. „Á eft­ir okk­ur voru að rúlla niður hnull­ung­ar, sér­stak­lega þarna sunn­an­meg­in við okk­ur. Þetta var al­veg ótrú­leg­ur kraft­ur. Það var eins og fjallið hefði færst til um fjóra metra og við með því. Svo hlup­um við niður og maður var bara hepp­inn að fá ekki stein yfir sig.“

Á stærð við Yar­is

Fyrst um sinn voru þau nán­ast hlaup­andi und­an stein­un­um en eft­ir að þau höfðu áttað sig bet­ur á hlut­un­um sáu þau að stein­arn­ir voru ekki að hrynja á eft­ir þeim. Þau gátu hlaupið niður og sáu steina rúlla um 200 metra til hliðar við sig alla leiðina niður. „Svo sá maður á leiðinni til baka að það var búið að kast­ast til alls kon­ar grjót á göngu­leiðinni sjálfri,“ seg­ir hann og nefn­ir að risa­stór steinn á stærð við kommóðu hafði hoss­ast upp úr fari sínu. Hann hafði því ekki rúllað niður hlíðina. Aft­ur á móti hafi stærstu stein­arn­ir sem hann sá verið á stærð við Yar­is-bíla.

Þessi steinn færist til.
Þessi steinn fær­ist til. Ljós­mynd/​Aðsend

Göngumaður hruflaði sig á hnakk­an­um

Við þetta er að bæta að Jón Svavar og Hall­dóra höfðu séð göngu­mann labba fram­hjá sér um kortéri áður en skjálft­inn varð. Fyrst um sinn, þegar þau voru kom­in niður fjallið, sáu þau hann ekki og gengu meðfram fjall­inu í von um að koma auga á hann. Síðar sáu þau hann og gaf hann þeim merki um að allt væri í lagi. Þau biðu svo eft­ir hon­um niðri og kom þá í ljós að hann hafði verið uppi á toppn­um þar sem út­sýn­is­skíf­an stend­ur. Þar færðist hann úr stað og datt og hruflaði sig á hnakk­an­um, að sögn Jóns Svavars.

Spurður hvort hann hafði ekki verið log­andi hrædd­ur í öll­um hama­gang­in­um seg­ist hann hafa fengið sjokk en at­b­urður­inn hafi líka verið spenn­andi. „Auðvitað verður maður skít­hrædd­ur þegar þetta ger­ist,“ seg­ir hann. Eft­ir að hann var bú­inn að átta sig á að allt væri í lagi „var ansi gam­an að upp­lifa þetta líka“.

Innt­ur eft­ir því hvort hann hafi áttað sig strax á því að þarna hefði orðið jarðskjálfti seg­ist hann ein­mitt hafa verið að ræða þessi mál við kær­ust­una sína á leiðinni upp fjallið. „Við vor­um að tala um að það væru bún­ir að vera skjálft­ar þarna. Maður var bú­inn að hugsa sér að það væri nú verra ef maður lenti í skjálfta,“ út­skýr­ir hann. „Þetta var ótrú­legt. Maður finn­ur við svona aðstæður hvað maður er lít­ill og landið er kröft­ugt und­ir manni.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert