Ljúft haustveður hefur verið víða á Norðurlandi síðustu daga, hægviðri og hiti yfir daginn gjarnan 5-10 gráður.
Fólk hefur því nýtt dagana til útiveru í hinu fallega umhverfi haustlitanna sem nú eru áberandi til dæmis í Innbænum á Akureyri. Þar eru trén í brekkunum ofan við gömlu húsin sum komin með rauðan lit, brúnan eða gulan ef barr þeirra er þá ekki fallið.
Áfram verður stillt veður víðast hvar í vikunni, en á miðvikudaginn gæti kólnað um landið norðan- og austanvert. Undir helgina snýst í suðaustlægar áttir með rigningu og hlýnandi veðri víðast hvar um landið. Fólki ættu því áfram að bjóðast tækifæri til útivistar áður en grimmur veturinn lætur fyrir sér finna.
Allir vegir eru enn greiðfærir, en á vef Vegagerðarinnar var í gær varað við hæstu fjallvegum; Þröskuldum fyrir vestan, Öxnadalsheiði, Háreksstaðaleið og Fjarðarheiði milli Héraðs og Seyðisfjarðar. sbs@mbl.is