Jafngildir því að 17% hafi skrifað undir

Katrín Oddsdóttir, afhentir Katrínu Jakobsdóttur undirskriftalistann.
Katrín Oddsdóttir, afhentir Katrínu Jakobsdóttur undirskriftalistann.

Tæplega 43.500 undirskriftir söfnuðust í undirskriftaherferð Stjórnarskrárfélagsins. Jafngildir það því að um 17% Íslendinga hafi skrifað undir. Katrín Oddsdóttir, formaður félagsins afhenti Katrínu Jakobsdóttur undirskriftalistann klukkan 13 í dag. 

Markmiðið var 10 prósent kjósenda 

Katrín Oddsdóttir, formaður félagsins segir niðurstöðuna framar væntingum. „Þetta er langt umfram væntingar. Við vorum að berjast fyrir því að ná 25 þúsund undirskriftum því það hefði dugað í þau 10% kjósenda sem þarf til að leggja til frumvarp á Alþingi samkvæmt nýju stjórnarskránni,“ segir Katrín.  

Hún segir að mikinn fögnuð hafa verið þegar 25 þúsund undirskriftunum hafi verið náð. Hins vegar hafi niðurstaðan orðið ríflega 43 þúsund undirskriftir sem nær allar voru staðfestar með rafrænum skilríkjum. Um 400 undirskrifta var aflað með því að fólk skrifaði undir með penna að sögn Katrínar. 

„Við viljum nú að haldið verði áfram með frumvarpið sem liggur fyrir frá 2013 sem hefur þegar fengið þinglega meðferð og laga það þannig að það verði í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslunnar,“ segir Katrín. 

Stuðningsmenn nýrrar stjórnarskrá voru mættir til að sýna málinu stuðning.
Stuðningsmenn nýrrar stjórnarskrá voru mættir til að sýna málinu stuðning.

Spurð hvort að 17% undirskrifta séu til marks um mikinn áhuga á málinu þá telur Katrín svo vera. „Þetta er bara undirskriftasöfnun og þetta hlutfall kjósenda er hærra en allir flokkar eru með á Alþingi nema Sjálfstæðisflokkurinn“ segir Katrín. 

Hún segir að fólk þurfi að gera upp hug sinn hvað það vilji kjósa miðað við þetta stóra mál og að fjölmiðlar þurfi að spyrja sig hvort að þeir vilji gera þetta að kosningamáli. „Og þá að spyrja flokka og frambjóðendur hvar þeir standa miðað við þetta stóra mál,“segir Katrín.

Hroki að halda að fólk geti ekki lesið sér til 

Haft hefur verið á orði að fáir hafi lesið stjórnarskrá og þekki hlutverk hennar.  Spurð um þetta segir Katrín: „Ég held í það minnst að nýja stjórnarskráin sé skrifuð á mannamáli og það er gott betur en sú sem er núgildandi. Að auki er að vissu leyti sumt sem þar stendur ekki rétt en svo þurfa lögfræðingar að útskýra venjur og túlka stjórnarskrána með tilliti til einhvers annars. En það  á ekki að vera þannig. Stjórnarskrá á að vera þannig að fólk geti lesið hana og skilið hana þó að dómstólar komi svo til með að túlka hann. Ég held að það sé ákveðinn hroki að halda því fram að fólk geti ekki lesið sér til og tekið afstöðu í þessu stóra máli,“ segir Katrín.  

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins.
Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins. Skjáskot/RÚV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert