Spá verulegri viðspyrnu næsta haust

Landsbankinn í Austurstræti.
Landsbankinn í Austurstræti. mbl.is/Árni Sæberg

Í þjóðhags- og verðbólguspá hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2020-2023 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 8,5% á árinu 2020 vegna kórónuveirufaraldursins.

Samdráttarskeiðið verður tiltölulega stutt en þrátt fyrir verulega viðspyrnu næsta haust verður efnahagsbatinn hægur fyrst um sinn, að því er segir í tilkynningu.

Hagfræðideildin spáir 3,4% hagvexti árið 2021 og um 5% árlegum vexti árin 2022 og 2023. Spáin hljóðar upp á að atvinnuleysi verði að meðaltali 7,8% á þessu ári og hækki í 8,4% árið 2021 en lækki síðan í 5,8% árið 2022 og 4,8% árið 2023.

Miða við bóluefni um næstu áramót

Í spá hagfræðideildar er miðað við að eitt eða fleiri bóluefni verði samþykkt í kringum næstu áramót. Almennu hjarðónæmi verði náð á Íslandi og í helstu viðskiptalöndum okkar á þriðja ársfjórðungi 2021 en vegna sóttvarnaaðgerða muni erlendum ferðamönnum ekki fjölga fyrr en næsta haust.

„Það verður seint lögð of mikil áhersla á að óvissan er gríðarlega mikil, bæði hvað varðar þróun Covid-19-faraldursins og efnahagslegar afleiðingar hans. Í grunnspá okkar gerum við ráð fyrir að efnahagsbatinn hefjist á seinni helmingi næsta árs samhliða því sem faraldurinn gengur niður í kjölfar þróunar bóluefnis og myndun hjarðónæmis hér á landi og í helstu viðskiptalöndum Íslands,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar, í tilkynningunni.

„Í þessum efnum er ekki á vísan á róa en þetta er þó talin líkleg þróun í ljósi stöðu bóluefnisrannsókna um þessar mundir. Það stefnir í að samdrátturinn í ár verði sá mesti frá lýðveldisstofnun en á móti kemur að við reiknum með að samdráttarskeiðið verði stutt og til að mynda töluvert styttra en síðasta samdráttarskeið.“

Aðrir þættir úr þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans:

  • Gert er ráð fyrir að útflutningur á þessu ári minnki um tæplega 30%, að langmestu leyti vegna samdráttar í ferðaþjónustu.
  • Einkaneysla dregst saman um 5,5% á árinu sem er mesti samdráttur frá 2009.
  • Heildarfjármunamyndun dregst saman um rúmlega 10%.
  • Samneysla og fjárfestingar hins opinbera aukast verulega auk þess sem innflutningur dregst saman um 22%, ekki síst vegna minni ferðalaga Íslendinga erlendis.
  • Gert er ráð fyrir um hálfri milljón ferðamanna í ár, 650 þúsund erlendum ferðamönnum á næsta ári, 1,3 milljónum árið 2022 og 1,9 milljónum 2023.
  • Verðbólgan verður lítillega yfir markmiði Seðlabanka Íslands fram á seinni helming næsta árs, vegna veikingar krónunnar það sem af er ári, en verður að meðaltali 3,1% á næsta ári, 2,7% 2022 og 2,6% árið 2023.
  • Stýrivextir verða óbreyttir í 1% allt næsta ár, hækka í 1,75% árið 2022 og verða 3,5% í lok árs 2023.
  • Launavísitalan hækkar í takt við kjarasamninga, um 5,8% milli áranna 2019 og 2020. Hún mun svo hækka um 6,1% á árinu 2021, um 5% 2022 og 4% 2023.
  • Gert er ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting dragist saman um 16,9% á þessu ári en fari síðan vaxandi frá og með 2021.
  • Ekki er gert ráð fyrir að faraldurinn muni hafa teljandi langtímaáhrif á sjávarútveg.
  • Gert er ráð fyrir að álframleiðsla dragist saman um 5,5 % á þessu ári.
  • Spáð er 16% samdrætti í íbúðafjárfestingu á þessu ári en 2-5% árlegum vexti á árunum 2021-2023. Íbúðaverð hækkar um 4,5% milli ára í ár og vöxturinn verður svo að jafnaði 4% á ári út spátímann.
  • Gert er ráð fyrir að halli ríkissjóðs á árunum 2020 og 2021 nálgist samtals 600 milljarða króna.
  • Þrátt fyrir fall í útflutningi verður lítils háttar afgangur af viðskiptajöfnuði í ár (+0,1%), minniháttar halli á næsta ári (-0,3%) en vaxandi afgangur árin 2022 (+1,4%) og 2023 (+3,4%).
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert