Kreppan skerði ekki afkomu- og húsnæðisöryggi

Frá rafrænu þingi ASÍ.
Frá rafrænu þingi ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

44. þing ASÍ krefst þess að stjórnvöld beiti ríkisfjármálum í þágu almannahagsmuna og tryggi með aðgerðum sínum að kreppan af völdum Covid-19 skerði ekki afkomu- og húsnæðisöryggi almennings.

Dregið verði úr atvinnuleysi og komið í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Þing ASÍ krefst þess jafnframt að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar þegar í stað til samræmis við þróun lægstu launa og að þak vegna tekjutengingar lág- og millitekjufólks verði hækkað.

Þá verði bótatímabilið lengt úr 30 í 36 mánuði. Samhliða verði tryggt að þau heimili sem lenda í tekjusamdrætti vegna lækkunar tekna eða atvinnuleysis komist í greiðsluskjól og þannig komið í veg fyrir skuldavanda til frambúðar.

Þing ASÍ áréttar að ákvarðanir sem teknar eru á krepputímum geta haft úrslitaáhrif til framtíðar. Þær geta sagt til um afkomu- og skuldavanda til ára og jafnvel áratuga; þær geta auka ójöfnuð en þær geta einnig, ef rétt er á haldið, dregið úr ójöfnuði.

Verkalýðshreyfingin kveðst eiga skýlausa kröfu til aðkomu að öllum stórum ákvörðunum sem nú eru teknar. Ákvarðanir verði að taka eftir skýrri framtíðarsýn, í samræmi við tillögur ASÍ, undir yfirskriftinni Rétta leiðin: frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll, sem byggja á stefnu ASÍ og kveða á um bráðaaðgerðir, uppbyggingu til framtíðar og eftirfylgni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert