„Táknmynd lögreglunnar sem refsandi afls“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir telur tilefni til að taka það alvarlega …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir telur tilefni til að taka það alvarlega að lögreglumenn beri merki sem skírskoti til ofbeldisfullrar hugmyndafræði. mbl.is/Samsett

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, gagnrýndi það harðlega í ræðu sinni á Alþingi í dag að lögreglumenn bæru merki sem skírskotuðu til rasískra afla á búningi sínum. Hún hyggst óska eftir því að málið verði tekið fyrir í allsherjar- og menntamálanefnd. 

Greint hefur verið frá því að á mynd af lögreglukonunni Anítu Rut Harðardóttur frá 2018 megi sjá þrjú fánamerki: „thin blue line“-fána, dökkleita útgáfu af íslenska fánanum og loks svokallaðan Vínlandsfána.

Auk þess má sjá mynd af teiknimyndafígúru sem heitir á ensku „The Punisher“. Þórhildur Sunna sagði það ekki sakleysislega tilvísun í Marvel-heiminn, heldur „táknmynd lögreglunnar vestanhafs sem refsandi afls, þeirra sem taka lögin og refsingar í eigin hendur og sneiða framhjá réttarkerfinu“.

„Skilaboðin eru að lögreglan hafi það hlutverk að refsa borgurunum fyrir ætluð lögbrot þeirra, rétt eins og refsarinn gerir, en slík viðhorf geta ekki talist æskileg í samfélagi sem segist að minnsta kosti styðja betrunarstefnu og réttarríki,“ sagði Þórhildur. 

Hvort tveggja er óásættanleg staða

Þórhildur benti á að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði þegar lýst því yfir að hún hefði ítrekað við allt sitt starfsfólk að lögreglumenn ættu ekki að bera nein merki sem ekki væru viðurkennd á búningnum. 

„Það eru vissulega jákvæðar fréttir en betur má ef duga skal, sérstaklega í ljósi ummæla lögreglukonunnar sem um ræðir sem sagði í samtali við Vísi að merki sem þessi væru notuð af mörgum lögreglumönnum og að hún teldi ekki að þau þýddu neitt neikvætt. Hún hefði sjálf borið merkin í áraraðir.

Ummæli lögreglukonunnar benda til þess að annaðhvort skorti mikilvæga fræðslu innan lögreglunnar um rasísk og ofbeldisfull merki eins og Vínlandsfánann og Punisher, eða refsaramerkið, nú eða, það sem verra væri, að rasismi og ofbeldisfull menning fær að grassera innan lögreglunnar. Hvort tveggja er óásættanleg staða,“ sagði Þórhildur Sunna.

Í þessari mynd hefur „thin blue line“-fáninn verið notaður í …
Í þessari mynd hefur „thin blue line“-fáninn verið notaður í Bandaríkjunum, meðal annars sem merki „blue lives matter“-hreyfingunni, sem er andsvar við „black lives matter.“ Ljósmynd/Wikipedia

Umdeildir fánar

Í umfjöllun mbl.is fyrr í dag kom fram að „Thin blue line“-fáninn hefur verið áberandi víða um heim undanfarin ár og vísar bláa línan til löggæslunnar í samfélaginu sem væri lína á milli laga og reglu og stjórnleysis. Hefur bláa línan oftast verið sett fram sem blátt strik þvert yfir mismunandi þjóðfána, en þjóðfánarnir eru í svarthvítu. Á síðustu árum hefur notkun fánans hins vegar verið umtöluð og hafa lögregluyfirvöld á nokkrum stöðum bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum þurft að skipa undirmönnum sínum að fjarlægja slíkar merkingar. Þannig hefur fáninn meðal annars þótt taka pólitíska afstöðu með „blue lives matter“-hreyfingunni gegn „black lives matter“-hreyfingunni og þannig hefur fáninn verið tengdur við hvíta þjóðernishyggju.

Vekur spurningar um brot á lögum um þjóðfánann

Fyrsti og annar fáninn hafa vakið spurningar hvort þar sé verið að brjóta lög um þjóðfána Íslendinga, en þar segir meðal annars að engin merki megi nota í þjóðfánanum önnur en sérstaklega eru tilgreind, en það eru meðal annars fáni forseta Íslands og tollgæslufáninn. Þá er einnig óheimilt að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana. Fánarnir tveir eru þó ekki í réttum litum miðað við íslenska þjóðfánann, en IS-merking bendir til þess að um eigi að vera að ræða íslenska fánann. Þess má geta að lögreglunni ber að hafa eftirlit með að fánalögum sé framfylgt.

Vínlandsfáninn hefur verið notaður af öfgahægrihópum.
Vínlandsfáninn hefur verið notaður af öfgahægrihópum. Ljósmynd/Wikipedia

Vínlandsfáni tengdur hægri öfgahyggju

Þriðji fáninn, svokallaður Vínlandsfáni, var fyrst notaður af ameríska metalbandinu Type O Negative, en litirnir táknuðu pólitískar skoðanir söngvarans, meðal annars varðandi sósíalisma og náttúru. Síðar tóku ýmsir hópar hægri öfgamanna að notast við fánann og hefur hann verið tengdur við slíka hópa og hatursorðræðu síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka