Alþjóðlegir fréttamiðlar hafa fjallað um viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við stórum jarðskjálfta sem varð á Reykjanesi um miðjan daginn í gær. Fréttamiðlarnir segja hana hafa haldið ró sinni þegar jarðskjálftinn reið yfir og Katrín var stödd í miðju viðtali við Washington Post. Viðtalið var í þokkabót í beinni útsendingu.
BBC, Reuters, Washington Post, Bloomberg, Daily Mail og fleiri stórir fjölmiðlar hafa fjallað um málið og því augljóst að viðbrögð Katrínar hafa vakið athygli út fyrir landsteinana.
„Katrín Jakobsdóttir hélt ró sinni þegar jarðskjálfti [5,6] að stærð truflaði viðtal Washington Post við hana í beinni útsendingu,“ segir í frétt BBC.
„„Guð minn góður, það varð jarðskjálfti,“ sagði Katrín þegar hún greip í borðið fyrir framan sig og tók andköf,“ segir í frétt Daily Mail um málið.
Katrín er þó ekki eini forsætisráðherrann sem hefur ratað í heimspressuna vegna jarðskjálfta í beinni útsendingu. Það gerði Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, einnig í sumar. Hún var þá í beinni útsendingu þegar jörðin skalf. Í kjölfarið hélt hún áfram með viðtalið, rétt eins og Katrín.